Leita í fréttum mbl.is

Að eiga hvorki fyrir salti á grautinn né hrísgrjón í pottinn

Á nú virkilega að bjóða Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum (IMF) til að krukka í samfélagið okkar? Meira um “hagstjórnarsnilld” sjóðsins. Eitt af uppáhaldsdæmum IMF um snilld sína er Ghana. Þar hefur sjóðurinn farið eins og eldur um sinu í hagkerfinu, þvingað einkavæðingar og opnun markaða. Þetta er auðvitað allt gert í nafni “frelsisins”. IMF þvingaði Ghana til að opna fyrir “frjálsan” innflutning á landbúnaðarvörum inn í landið. Helsta fæða fólks eru hrísgrjón. Og maður myndi halda að hitabeltisland eins og Ghana ætti að hafa hlutfallslega yfirburði í landbúnaði. En málið er ekki svona einfalt. Þegar opnað var fyrir innflutning á hrísgrjónum þá hrundi innanlandsframleiðslan. Hvers vegna? Jú, hrísgrjónin, sem aðalega voru flutt inn frá Bandaríkjunum, eru stórlega niðurgreidd með ríkisstyrkjum og gegn slíkum ósköpum gátu innfæddir smábændur einfaldlega ekki keppt. Þetta vogaði IMF að kalla “frjáls viðskipti”. 60% íbúa Ghana lifa á landbúnaði. Hrísgrjónabændur eru ekki þeir einu sem þjást, aðrar niðurgreiddar landbúnaðarvörur, t.d. tómatar frá Ítalíu, haf flætt yfir markaðinn. Á hverju eiga fátækir smábændur í Ghana að lifa ef þeir geta ekki lifað af landbúnaði vegna niðurgreidds innflutnings frá ríkum löndum? Afaama Asaraga er hrísgrjónabóndi í Ghana (sjá Christian Aid). Verðlag hefur farið stórlækkandi á hrísgrjónum á innanlandsmarkaðinum þannig að hún getur varla haft í sig og á. Hún gerir ekki miklar kröfur til lífsins. Hún biður ríkisstjórnina að tryggja það að þau þurfi ekki að keppa við niðurgreiddan innflutning. “Við viljum bara geta lifað eins og bændurnir frá löndunum þaðan sem innfluttu [niðurgreiddu] hrísgrjónin koma. Þá gæti ég sent börnin mín í skóla, eins og börn þeirra sem framleiða innfluttu hrísgrjónin.” Ekki biður hún um mikið, bara tækifæri til að eiga í sig og á og geta sent börnin sín í skóla.

Hver eru viðbrögð IMF við neiðarópi Asaraga? Árið 2003 samþykkti þingið í Ghana lög sem vernduðu smábændurnir í landinu fyrir niðurgreiddum innflutningi. En landið réði sér ekki sjálft. IMF þvingaði ríkisstjórn landsins til að draga þetta til baka. Þeim kom ekkert við þótt milljónir smábænda ættu hvorki fyrir salti á grautinn né hrísgrjón í pottinn. Hvað vill þetta fólk upp á dekk? Hvílík frekja, ætla að senda börnin sín í skóla? Tímaeyðsla, þau börn verða aldrei hagfræðingar. Forréttindi niðurgreiddu verkssmiðjubændanna í Bandaríkjunum gengur fyrir. Viljum við virkilega bjóða þessu fólki inn í stofu til okkar?


mbl.is Mjög róttæk viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvíburasysturnar í Washington

Nú eru menn í alvöru að tala um það að fá Aþjóðagjaldreyrissjóðinn í Washington til að „bjarga“ Íslandi. Það er því nauðsynlegt að líta á „glæsilega“ sögu IMF og tvíburasystur hennar, Alþjóðabankann (World Bank). Best er að skoða einstök dæmi því þau gefa okkur góða innsýn inn í hvaða hugsanagangur og „hagfræði“ ríkir þar á bæ. Skoðum því vatnsstríðið í Bólivíu.

Tvíburasysturnar eru búnar að vera með klærnar í Bólivíu, eins og mörgum öðrum fátækum löndum í árafjölda. Ifrastrúktur þar er í molum og ekki síst nauðsynlegt að byggja upp vatnsveitukerfi sem virkar.  Fyrir 8 árum neitaði Alþjóðabankinn að framlengja 25 milljóna USD lán til Bólivíu nema að vatnsveitan yrði einkavædd. Með byssuna yfir höfðinu var vatnsveitan í þriðju stærstu borg Bólivíu, Cochabamba, boðin út. Einungis eitt fyrirtæki  gerði  tilboð, fyrirtæki að nafni  Aguas del Tunari  sem m.a. var í eigu bandaríska glæpafyrirtækisins Bechtel Enterprise Holdings, sem m.a. er búið að mjólka stríðsgróða í Írak. Fyrirtækið gerði samning til 40 ára um að fá einkarétt á allri vatnsveitu í borginni, eða eins og sagði orðrétt í samningnum, "to provide water and sanitation services to the residents of Cochabamba, as well as generate electricity and irrigation for agriculture." Fyrirtækinu var tryggður(!) 15% hagnaður í bandaríkjadölum að lágmarki. Þetta einkaleyfi var svo víðtækt að Aguas del Tunari  bannaði smábændum að notast við eigin vatnsveitur og jafnvel safna regnvatni fyrir uppskeru sína, þar sem þeir hefðu einkarétt á öllu vatni. Fyrirtækið hækkaði vatnsverð á stundinni um 35% þannig að meðalvatnsreikningur manna var um þriðjungur af lágmarks launum í landinu! Fólkið í landinu varð að sjálfsögðu brjálað og reis upp til harkalegra mótmæla gegn tvíburasystrunum í Washington sem höfðu þvingað þessi ósköp upp á þjóðina. Til að gera langa sögu stutta flúðu yfirmenn Aguas del Tunari land í dramatík sem minnti á flóttann úr sendiráði Bandaríkjanna í Saígon 1975. Vatnið fór aftur í almannaeign en í hefndarskini var skrúfað fyrir nauðsynlega peninga til að betrumbæta vatnsveituna þannig að þar er enn ýmsu ábótavant. En fólkið fékk með þrautseigju sinni aftur yfirráð yfir lágmarksmannréttindum sem vatn er og heldur því ennþá (sjá Wikipedia hér). Fólkið í Bólivíu fékk síðan endanlega nóg af þjónkun þarlendra stjórnvalda við alþjóðafjármagnskerfið og einkavæðingarkórinn og kaus sósíalistann Evo Morales sem forseta til að hreinsa til í þrotabúinu.

Hvað ætlar tvíburasystirin IMF að gera við íslenskar eigur? Selja Landsvirkjun á slikk? Afhenda Bechtel Orkuveitu Reykjavíkur? IMF er löngu búið að sanna það að þar ráða trúaðir nýfrjálshyggjumenn sem hugsa um það first og fremst að tryggja að fjármálafurstum séu borguð lán.  Síðan þvingar IMF fátæk lönd til að “opna” alla markaði svo niðurgreiddur verksmiðjulandbúnaður ríkra landa geti rústað lifibrauði fátækra smábænda (meira um það síðar). Viljum við virkilega bjóða þessu liði heim í stofu til okkar?


mbl.is Lán IMF fullnægir ekki þörf ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vika er langur tími í pólitík

Fyrir viku hrósaði ég ríkisstjórninni fyrir að taka loksins á málunum af festu. Ég hélt að það ætti nú loksins að setja hagsmuni almennings framar öllu og bjarga því sem bjargað verður. Því miður hafði ég rangt fyrir mér. Ríkisstjórninni virðist ætla að takast að klúðra milljörðum af eignum almennings, mannorði Íslendinga og Íslands er rústað sérstaklega hér í Bretlandi og ekkert gert til að hindra það. Seðlabankastjóri situr enn, fjármálaráðherra, sem varla talar ensku, er hleypt í símann við fjármálaráðherra Bretlands og kostar okkur tugi milljarða. Hann situr enn. Svo til að toppa allt er verið að selja eigur okkar með leynd, eins og gert var með eignir Glitnis í Finnlandi þar sem söluverðið var ekki gefið upp! Fólk óttast það eðlilega að verið sé að selja eigur þjóðarinnar á slikk í bakherbergjum. Hvað í andskotanum eru menn að hugsa.

Nú dugir ekkert hálfkák. Það þarf að skipta algjörlega um yfirstjórn seðlabankans. Ríkisstjórnin þarf að fara frá nú þegar. Minnihlutastjórn stjórnarandstöðunnar taki við, varin af Samfylkingunni. Góðir utanþingsmenn komi inn í þá stjórn, fólk sem er búið að vara við ósköpunum í langan tíma. Kosningar verði boðaðar snemma á næsta ári og síðan verði samfélagið endurskipulagt á félagslegum forsendum, þar sem markaðurinn verði þjónn ekki herra. Markaðssamfélagið er dautt, þetta verða menn að skilja, það þýðir ekkert að láta þann Zombi halda áfram að skelfa okkur. Þetta þarf að gera strax.


mbl.is Óraunhæft að engin skilyrði verði sett fyrir aðkomu IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna er verð á eigum íslensks almennings trúnaðarmál?

Það er fjarstæða að menn komist upp með að selja eigur íslensk almennings fyrir einhverja "trúnaðarupphæð". Nú getur vel verið að verðið hafi verið ásættanlegt. En ef við eigendurnir vitum ekki hvað varðmiðinn var, þá hlýtur sá grunur að læðast að manni að verið sé að stela eignum okkar fyrir slikk. Upp á borðið með allar tölur.
mbl.is Glitnir selur starfsemi sína í Finnlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrægammarnir mættir

Nú koma hrægammarnir fram og reyna hvað þeir geta að svindla á almenningi eina ferðina enn. Skuldir Baugs við bankana eru núna skuldir við íslensku þjóðina. Ef Baugur getur ekki borgað þessar skuldir þá taka þrotabú bankanna (sem eru enn og aftur í eigu samfélagsins) auðvitað yfir fyrirtækið og selur það í rólegheitunum eftir því sem þurfa þykir. Látum ekki hrægamma stela frá okkur eigum okkar.
mbl.is Green vildi kaupa skuldir Baugs með 95% afslætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig 2% ávöxtun verður að 47% tapi

Núna þegar menn eru að vakna upp við það að íslenska samfélagið sé meira og minna komið á hausinn velta menn sér eðlilega fyrir sér hvað gerðist eiginlega. Það er freistandi að kenna um einstaklingum (vondum kapítalistum eins og seðlabankastjóri og skósveinn hans, Hannes Hólmsteinn Gissurarson segja). Það er freistandi að kenna um útlendingum (þetta er allt Brown að kenna). Þó vissulega spili einstaklingar inn í söguna þá er þetta hrun fyrst og fremst hrun ákveðinnar hugmyndafræði, nýfrjálshyggjunnar (neo-liberalism), og því í raun sambærilegt við það sem gerðist við hrun austur evrópsku tilskipunarhagkerfanna fyrir tæpum 20 árum. Ég ætla hér að draga upp ofureinfaldaða lýsingu á hvað setti í raun stóran hluta fjármálakerfis heimsins á hausinn.
 
Í lok síðustu aldar var mikil uppsveifla í efnahag heimsins, svokölluð punktur com uppsveifla. Þetta var keyrt áfram af þeirri trú að ný tækni hefði breytt heiminum svo mikið að kreppur væru liðin tíð og framleiðniaukning væri svo svakaleg að leiðin væri bara upp á við. Þegar loftið fór úr bólunni uppúr 2000 fóru fjármagnseigendur að leita að nýjum gróðatækifærum og fasteignir urðu fyrir valinu. Þetta leiddi til gífurlegs hækkunar á fasteignavirði og fjármagnseigendur sáu ofsagróða og feitir bónusar leituðu til "snillinganna" sem stjórnuðu fjármálastofnunum. Þetta var allt tryggt í fasteignum og því stimplað sem "örugg" fjárfesting. En það eru takmörk fyrir því hversu mörg "góð" lán er hægt að veita. Þetta leiddi til vaxtar í svokölluðum undirmálslánum (sub-prime). Þessi lán voru talin sæmilega örugg þar sem verð á fasteignum hélt áfram að vaxa og áhættunni var síðan dreift (eða svo héldu menn) með því að pakka saman milljónum lána í fjárfestingapakka. Hugmyndin var að þó margir myndu ekki reynast borgunarmenn þá skipti það ekki máli vegna þess að áhættunni hefði verið dreift á nógu mörg lán. Nú vita menn að þetta reyndist della og húsnæðisverð hrundi (eins og auðvitað var hægt að sjá fyrir). Slíkt sjokk, þó stórt væri, hefði fjármálakerfið vel átt að geta tekið, sérstaklega eftir uppsafnaðan hagnað fyrri ára.
 
En, nú kemur stóra ennið. Bónusfurstarnir töldu sig vera komna í áskrift á feitum bónusum og ofsagróða. En þegar hagnaðar prósentan dróst stórlega saman þá fundu þeir upp "snilldarlausn". Fjárfestann skiptir einungis máli hversu mikinn hagnað hann hefur af fjárfestingu sinni. Þú ert t.d. með milljón sem þú vilt fjárfesta. Bankasnillingarnir fundu upp "snilldarlausn" til að ná 20-40% hagnaði á fjárfestingu (return on equity). Það skipti ekki máli (héldu þeir) þó að einungis væri hægt að skrapa 2-3% hagnað út úr kerfinu. Í stað þess að fjárfesta 1 milljón voru 9 milljónir teknar að láni til viðbótar. Þannig að heildarfjárfestingin var 10 milljónir. Ef peningarnir "kostuðu" segjum 7% á ári þá kostuðu 9 milljónirnar sem þú fékkst að láni 630.000. Þú fjárfestir 10 milljónir, færð 10% hagnað (1.000.000), borgar 630.000 og átt eftir 370.000. Manstu að þú lagðir bara af stað með milljón, þannig að hagnaður þinn eru risa 37% af fjárfestingunni! En hvað gerist ef "hagnaðurinn" er einungis 2% af fjárfestingunni? Ef þú hefðir bara fjárfest þína milljón fengir þú samt 20.000 í ágóða. En þar sem þú tókst 9 milljónir í lán þá færð þú einungis 200.000 fyrir 10 milljónirnar. Þar sem vextirnir eru 630.000 þá hefur þú allt í einu tapað 470.000 á milljóninni þinni eða 47%! Þetta er á ofureinfaldaðan hátt það sem gerðist. Nægir peningar voru í umferð, sérstaklega vegna geðveikrar fjármálastjórnar BNA (stórlækkaðir skattar og stórhækkuð ríkisútlán) og gífurlegs sparnaðar í Asíu sem fjármagnaði eyðslufylleríið. Þetta er nákvæmlega það sem gerðist í risastóru mæli í fjármálakerfi heimsins og á Íslandi. Þessi spilaborg hrundi auðvitað og það all svakalega.
 
Eins og sjá má þá spiluðu fjármálafurstarnir í raun gríðarlegt fjárhættuspil með peningana okkar. Og nú sitjum við uppi með tapið. Vissulega er sökin þeirra, en sökin er ekki síður kerfisins sem leifði þeim að gera þetta. Það kerfi er nú gjaldþrota. Vissulega skal sækja á þá einstaklinga sem bera ábyrgð á hruninu, sömu einstaklinga sem taldir voru rosalegir snillingar sem þurfti að borga ofurlaun fyrir snilldina og settu okkur á hausinn. En það er kerfið sem er fyrst og fremst gjaldþrota. Nokkrir munu halda áfram að berja hausnum við steininn og kenna um "vondum kapítalistum" þegar það er í raun kerfið sem er sökudólgurinn. Spilavítiskapítalisminn er hruninn. Við skulum ekki láta blekkjast að þeim "hreintrúuðu", sem ekki síður en þeir sem trúðu blint á austurevrópska tilskipunarhagkerfið áttu sumir erfitt með að sætta sig við að heimsmynd þeirra er hrunin. Þessa menn þarf að hreinsa út. Nú er það okkar hlutverk að segja hingað og ekki lengra, og byggja upp manneskjulegt samfélag jöfnuðar og réttlætis á rústunum. Þá munum við byggja eitthvað varanlegt fyrir börnin okkar, ekki bara skilja þau eftir með skuldir eyðslufyllerís okkar. Nú er lag.

mbl.is Ástandið verra en þjóðargjaldþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er ekki stríð milli bresks almennings og íslensks almennings!

Hrun íslensku bankanna fellur nú með fullum þunga á almenning bæði í Bretlandi og á Íslandi. Bresk sveitarfélög eru með yfir milljarð punda (tugi milljarða íslenskra króna) á reikningum Icesave. Góðgerðarsamtök eru með yfir 100 milljónir punda á þessum reikningum og önnur almannaþjónustufyrirtæki með annað eins. Því virðist ljóst að almenningur í Bretlandi (þ.á.m. ég) kemur til með að blæða. Um hryllinginn sem blasir við íslenskum almenningi er þarf ekki að fjölyrða. Þar, eins og í Bretlandi er það almenningur sem blæðir. Það er að mínu áliti stórhættulegt að stilla þessu upp sem baráttu milli íslensks almennings og bresks almennings. Báðir hópar eru fórnarlömb. Það sem nú þarf að gera er að finna Icesave peningana.

Innistæður í Icesave/Landsbanka eru mun hærri en fjárlög íslenska ríkisins. Þessar svakalegu upphæðir laðaði bankinn til sín með því að bjóða lang hæstu vexti sem í boði voru á Bretlandseyjum. Nú er ég ekki bankamaður, en kann hins vegar töluvert í hagfræði. Þar sem hlutverk fjármálastofnanna er að miðla sparnaði í fjárfestingar, þá hlýtur Landsbankinn að hafa verið með rosa flott fjárfestingamódel, annars væru þeir varla tilbúnir að borga meira fyrir sparnaðinn en nokkur annar banki á Bretlandseyjum. Nú eigum við því kröfu á að sjá þessi flottu fjárfestingarmódel Landsbankans. Þar hljóta peningarnir að vera. Ekki voru þeir í húsnæðislánum, sem erfitt er að losa út í fljótheitum. Peningarnir hljóta því að vera í rosa flottum fjárfestingum og tryggum ábatasömum lánum. Því hlýtur maður að reikna með, var ekki verið að borga bankastjórunum rosa flott laun og bónusa þar sem þeir eru svo klárir? Finnum þessa peninga og borgum breskum almenningi með þeim. Þetta eru þeirra peningar.

Við skulum hætta að stilla þessu upp sem baráttu milli íslensks og bresks almennings. Fólk þessara landa á að snúa bökum saman og velta hverri þúfu og leita í öllum skápum, á öllum flugvöllum og á öllum karabískum eyjum, einhverstaðar hljóta Icesave peningarnir að vera. Þessa peninga á að nota til að borga innlánin, og ef þeir eru horfnir þá þarf að finna skýringu á því hvers vegna þessir peningar hurfu. Nú þurfa íslenskur almenningur og breskur almenningur að hætta að kenna hvor öðrum um en snúa sér hins vegar saman að því að finna Icesave peningana.


mbl.is Sendinefnd Breta væntanleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð geta verið dýr...

... það verða menn að skilja á þessum síðustu og verstu tímum þó venjulega kosti orð ekki tugmilljarða. Ef þetta var misskilningur hjá Darling þá er fjármálaráðherra ekki starfi sínu vaxinn. Svo einfalt er það. Það verður að tryggja að allt sem kemur frá Íslenskum stjórnvöldum sé vandlega úthugsað, og farið yfir af fólki sem kann viðkomandi tungumál. Svo einfalt er það.
mbl.is Samtal við Árna réð úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar eru Icesave peningarnir?

Landsbankinn safnaði innistæðum sem eru líklega á stærð við fjárlög ríkisins. Þessum góða árangri náðu þeir með því að bjóða hærri vexti en nokkur annar. Það segir sig því sjálft að Landsbankinn hlýtur að hafa verið með flott ávöxtunarprógram þar sem þeirra hlutverk er að miðla sparnaði í fjárfestingar með hagnaði. Enginn banki þolir að það sé gert "run" á þá. Það segir sig sjálft. Sértaklega ef innlánin fara í langtímalán eins og húsnæðislán. En góðu heilli var Landsbankinn ekki í húsnæðislánabransa í Bretlandi. Því hljóta þessir peningar að vera í lánum til skemmri tíma og ætti því að vera hægt að ná þeim til baka og borga sparifjáreigendunum. Við verðum auðvitað að trúa því að Landsbankinn hafi ekki sett þessa gífurlegu fjármuni í ónýtar fjárfestingar, er það ekki? Breski fjármálaráðherrann vakti mig upp á BBC í morgun, æfur út í Íslendinga. Sagði að það virtust vera engir peningar til að borga Icesave innlánin. Við trúum því auðvitað að þetta sé bull hjá ráðherranum, eignir Landsbankans hljóta að borga þetta upp að mestu leiti er það ekki?
mbl.is Brown hótar aðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðmundur Auðunsson
Guðmundur Auðunsson

Vill leggja sitt af mörkum til að byggja upp nýtt samfélag jöfnuðar og réttlætis.

mummi[á]btinternet.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband