Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Það þarf að lækka vextina strax...

...AGS á ekki að komast upp með neitt múður. Þeir eru fyrst og fremst varðhundar alþjóðlegra lánenda og fastir í gersamlega úreltum klisjum um hvernig eigi að standa að hagstjórn. Ríkisstjórnin á að taka saman blað um brýnar efnahagsúrlausnir, þ.á.m. stórfelldar vaxtalækkanir og senda það til fulltrúa AGS og tilkynna þeim að þetta verði gert hvort sem þeim líkar betur eða verr. Er ekki hræddur við að lenda í rimmu við AGS, sjóðurinn er gersamlega rúinn trausti og á sér fáa verjendur nema þá sem hann gætir hagsmuna fyrir.
mbl.is Sitjum ekki undir tilskipunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maístjórnin lendir hlaupandi, byltingin heldur áfram.

Nú hefur ný meirihlutastjórn vinstriflokkanna verið mynduð. Eru þetta söguleg tímamót í íslenskri stjórnmálasögu, í fyrsta sinn í sögunni þar sem vinstriflokkarnir hafa hreinan meirihluta á þingi. Ég tel að með þessu hafi orðið breyting til framtíðar, þar sem skipbrot Sjálfstæðisflokksins og stefnu hans er algjört, enda skilur Flokkurinn eftir efnahagslífið í rjúkandi rúst.

Auðvitað eru viðfangsefni ríkisstjórnarinnar gríðarleg, enda er fullur skilningur á því meðal þjóðarinnar. Við sitjum uppi með stórfelldar skuldir sem fjárglæframenn og óhæfir stjórnmálamenn bera ábyrgð á, skuldir sem verður að tryggja að lendi síst á þeim sem minnst mega sín, breiðu bökin verða einfaldlega að taka á sig auknar birgðir. Deilunni um inngöngu í ESB verður leyst með því að vísa henni til Alþingis og þjóðarinnar, um annað virtist ríkisstjórnin ekki eiga í miklum erfiðleikum að koma sér saman um, þó eðlilega beri stjórnasáttmálinn merki málamiðlanna af beggja hálfu. Það sem stendur samt uppúr er að tryggja á yfirráð samfélagsins yfir auðlindunum með stjórnarskrárákvæði og gjafakvótinn verður kallaður inn þó án þess að valda kollsteypu í þessari erfiðu efnahagsstöðu. Er þar skynsamlega haldið á málum. Hér er kjarninn í sameignarrétti þjóðarinnar:

"Með sérstöku ákvæði í stjórnarskrá verði undirstrikað að fiskistofnarnir umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar. Úthlutun aflaheimilda er tímabundinn afnotaréttur og myndar ekki undir neinum kringumstæðum eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildunum." (lbr. mín)

100 daga áætlunin sýnir það að ríkisstjórnin veit að það þarf að halda áfram vinnunni af fullum krafti. Efnahagsmálin og þrot heimilanna þola enga bið. Komið verður til móts við slæma stöðu námsmanna með úttekt á framfærslu LÍN, óréttlætið í fiskveiðikerfinu verði afnumið, komið verði enn frekar til móts við vanda lánagreiðenda og leitast við að ná jafnvægi í fjármála og efnahagsstefnu þjóðarinnar. En ekki er einungis fjallað um lausnir á bráðavanda. Einnig er horft til framtíðar, enda nauðsynlegt að taka á þeim róttæku breytingum sem þarf að gera í samfélaginu. Búsáhaldabyltingin í janúar vara bara fyrsti þáttur í samfélagsbyltingunni. Þessi ríkisstjórn og kosningarnar voru skref tvö. En byltingin heldur áfram. Gera þarf róttækar breytingar á samfélaginu bæði á stjórnskipunni og einnig á grunnþáttum samfélagsins. Við viljum byggja upp nýtt samfélag á grunni raunverulegs frelsis almennings, þar sem jöfnuður og réttlæti eru höfð að leiðarljósi, ekki ónýt trúarbrögð um óskekluleika markaðarins. Ríkisstjórnin hefur lofað stjórnlagaþingi sem mun m.a. taka á þessu. Enda er byltingin rétt hafin, byltingar eru ferli ekki atburðir og byltingarferlið til að byggja upp nýtt Ísland er rétt að hefjast

Að lokum mæli ég með nafninu Maístjórnin fyrir nýju ríkisstjórnarinnar eftir vetrar og vorhret fyrri ára. Ég veit eina STJÓRN, eina STJÓRN sem skín, og nú loks ertu komin, þú ert komin til mín.


mbl.is Mikil þrautaganga framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1. maí í skugga kreppu

Mikilvægi 1. maí, alþjóðlegs baráttudags verkafólk, hefur sjaldan verið mikilvægari en í ár. Spilavítiskapítalisminn er hruninn og almenningur út um allan heim situr eftir með skuldirnar af græðgisvæðingunni. En þetta hrun skapar einnig tækifæri. Tækifæri til að byggja upp nýtt og réttlátara samfélag þar sem jöfnuður og réttlæti eru sett í forsæti. Sú krafa er háværari en hún hefur verið í langan tíma, fólk út um allan heim er búið að fá nóg af græðgi og auknu misrétti. Slíkt hefur auðvitað verið sláandi á Íslandi síðastliðna tvo áratugi þegar við höfum horfið af braut tiltölulegs jöfnuðar og horft upp á hlutfall þeirra 1% sem hæst hafa launin aukast úr 3.5% í 20%! Slíkt er auðvitað óalandi og óferjandi og snúa verður af þeirri braut.

Íslendingar hafa gengið í gegnum viðburðaríkt ár. Í byrjun ársins streymdi fólkið út á göturnar og knúði óhæfa ríkisstjórn út úr stjórnarráðinu. Það var fyrsta skrefið í Búsáhaldabyltingunni. Næsta skref voru kosningarnar þar sem vinstriflokkarnir og hin róttæka Borarahreyfing náðu samanlagt um 60% atkvæða. Kjósendur hafa eðlilega færst mikið til vinstri, enda skilja hægrimenn samfélagið eftir í rúst. Það var annað skref Búsáhaldabyltingarinnar. En samfélagsbylting er ferli. Nú er lag að byggja upp nýtt samfélag sem byggir á gildum jafnaðarstefnu og róttæks sósíalisma. Það verður að gera fyrir börnin okkar, það skuldum við vinstrimenn framtíðinni. Megi almenningur út um allan heim eiga góðan og baráttufullan dag, 1. maí er baráttudagur okkar allra. Fram þjáðir menn í þúsund löndum!


mbl.is „Kreppa nærð af græðgi"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nakin hagsmunagæsla Sjálfstæðisflokksins

Nú þegar einkavinirnir hafa rústað fjármálakerfi landsins með taumlausri græðgi sinni og kvótagreifarnir tekið gjafakvótann til að spila í fjárhættuspilum alþjóða fjármálamarkaða þá er lítið eftir af sameiginlegum auði landsmanna til að krækja klónum í. Nú hefur græðgissveitin beint augum sínum að fallvötnunum og orkunni. Þeir reyndu í REY dæminu en voru að góðu heilli stoppaðir. Nú skal undirbúinn jarðvegurinn til að einkavinavæða orkulindirnar. Strategían virðist einföld. Skuldahali einkavinanna er skilinn eftir hjá þjóðinni. Þar sem skuldirnar eru svo miklar á að reyna að blekkja almenning til að einkavinavæða orkuna. En til þess að það sé hægt þarf fyrst að hindra að bann sé sett við slíku í stjórnarskrá lýðveldisins. Þess vegna lagði stjórnmálaflokkur græðgissveitarinnar svo mikla áherslu á að stoppa stjórnarskrárbreytingarnar. Skömm þeirra er mikil og lífsnauðsynlegt fyrir almenning að refsa flokknum í kosningunum.
mbl.is Ofbeldi og skemmdarverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birtingarmynd græðgissamfélagsins

Ég tel stóru styrkina til SjálfstæðisFLokksins frekar vera birtingarmynd spillts samfélags frekar en að um persónulega spillingu sé að ræða. Grundvallaratriðið er að hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins er gegnsýrð græðgisvæðingunni, þar sem peningar skiptu öllu máli. FL Group og Landsbankinn voru auðvitað stór hluti af græðgisvæðingunni. Hugmyndafræðin var að peningar skiptu öllu máli, skítt með allt annað. Var því að vissu leiti skiljanlegt að FL Group og Landsbankinn þökkuðu pent fyrir sig með stórum "gjöfum" til FLokksins, fyrirtækin og FLokkurinn voru samherjar í græðgisvæðingunni. Samfélags SjálfstæðisFLokksins var sjúkt og því ekki nema furða að menn í FLokknum eins og Guðlaugur og Sigurjón bærust með og þætti ekki neitt mál að henda tugum milljóna á milli vina. Þó Guðlaugur og Sigurjón hafi verið hluti af vandamálinu þá er stóra vandamálið FLokkurinn sjálfur. Það er Íslendingum lífsnauðsynlegt að Sjálfstæðisflokkurinn og spillt hugmyndafræði hans verði á hliðarlínunni í framtíðinni.
mbl.is Var í beinu sambandi við bankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lofar góðu en...

... nú verða vinstrimenn að taka á öllu sínu til að tryggja ríkisstjórninni sterkan meirihluta á þingi. Komandi kosningar eru þær mikilvægustu í árátugi og munu skipta sköpum í hvernig framtíðarland við munum byggja upp á Íslandi. Ég skora því á alla vinstrimenn að leggja sitt á vogarskálarnar og tryggja vinstra vor í ár. Nú er tekist á um grundvallarskoðanir. Viljum við byggja upp nýtt samfélag byggt á jöfnuði og réttlæti eða viljum við áframhald á því sama, einhverskonar "frjálshyggju light"? Byltingin er rétt að byrja.
mbl.is VG upp fyrir Sjálfstæðisflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsynlegur skattur

Eignaskattar eru eina af fáum leiðum til að skattleggja ofsagróða bónusfursta útþensluáranna í gegnum eignir þeirra. Svo einfalt er það. Slíkir skattar myndu ekki lenda á fólki með venjulegar húsnæðiseignir. Einhverstaðar þarf að fá peningana til að borga skuldir sukkstjórna Sjálfstæðisflokksins. Það er ekki hægt að senda reikninginn til kynslóða framtíðanna. Hækka þarf líka fjármagnstekjuskatt og setja á "windfall" skatt á bónusa fyrri ára. Það er fáránlegt að gróðinn þegar fjárhættuspilin gegnu vel renni til einkaaðila i gegnum bónusa en almenningur borgi brúsann þegar svikamyllan hrundi. Slíkt er æpandi óréttlæti.
mbl.is Vinstri græn vilja eignaskatta á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bravó Ögmundur

Ögmundur Jónasson sýnir hér mjög drengilegt fordæmi. Það vita allir að það þarf að spara í heilbrigðiskerfinu og draga úr launakostaði, sérstaklega hjá þeim sem eru með hærri launin. Með því að þiggja ekki ráðherralaun í þessari ríkisstjórn sýnir Ögmundur frábært fordæmi. Það er ekki sama hvar er sparað en það ætti öllum að vera ljóst að með slíkan afburðarmann sem Ögmund í forsvari fyrir heilbrigðismálunum verður ekki skert þjónustan hjá þeim sem síst skildi. Enn og aftur, bravó Ögmundur.
mbl.is Ögmundur fær ekki ráðherralaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vægt tekið til orða hjá Frökkunum...

... þessar yfirlýsingar Páfa eiga líklega eftir að kosta þúsundir manna lífið. Það er marg búið að sanna að smokkar eru lang öflugasta vörnin í baráttunni gegn HIV veirunni. Páfi virðist lifa í einhverjum heimi þar sem kynlíf er eitthvað ógeðslegt sem aðeins skal stunda til að fjölga mannkyninu. Heldur hann virkilega að menn hætti að stunda kynlíf bara af því að einhverir forstrokkaðir karlar í kjólum hafa ákveðið að stunda ekki kynlíf sjálfir og vilja að aðrir stundi "kynlífsbindindi"? Hvað með hjón þar sem annar aðilinn er smitaður en hinn ekki? Notkun smokkar getur alveg komið í veg fyrir smit á milli hjónanna. Páfi og páfagarður undirstrika hversu afturhaldsöm stofnun þetta er og því miður trúa margir dellunni í kjólakörlunum og gjalda fyrir það með lífi sínu. Angry
mbl.is Frakkar gagnrýna ummæli Benedikts páfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningar, kosningar, konsingar...

...þá er stóri dagurinn runninn upp hjá mörgum. Sjálfur er ég í framboði í forvali VG í Kraganum, stefni á 3-4 sæti. Þar gefur einvalalið kost á sér. Þetta verða örlagaríkar kosningar í vor. Við vinstrimenn erum því að bretta upp ermarnar og leggja okkar að mörkum. Í SV kjördæminu, þar sem ég er í framboði, er einvalalið í boði. Góð blanda af nýju og reyndu fólki. Guðfríður Lilja og Ögmundur eru óumdeildir leiðtogar okkar í kjördæminu. En margir góðir sækja að 3. og 4. sætinu ásamt mér. Ég lít á þetta sem skref 2 í búsáhaldabyltingunni sem er nú að breyta samfélaginu okkar í samfélag jöfnuðar og réttlætis þar sem frelsi fólksins, ekki peninganna er sett í öndvegi. Áberandi í búsáhaldabyltingunni hefur verið Margrét Pétursdóttir, eða Magga Pé úr Hafnarfirði, Hún stefnir á 3. sætið og veit ég að þar fer úrvals manneskja. Af öðrum sem ég þekki vel má nefna Einar Ólafsson bókavörð, sem stefnir á 5-6 sætið. Það er allavega ljóst að það mun veljast einvala lið til forystu VG í kjördæminu.

Að lokum hvet ég alla til að mæta á kjörstað og kjósa. Upplýsingar um kjörstaði er að finna hér. Einnig er ykkur velkomið að líta á stuðningsmannasíðuna mína á www.mummi.eu og síðuna mína á Facebook. Allir á kjörstað og veljum okkar frambjóðendur.


mbl.is Líflegasta prófkjörshelgin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðmundur Auðunsson
Guðmundur Auðunsson

Vill leggja sitt af mörkum til að byggja upp nýtt samfélag jöfnuðar og réttlætis.

mummi[á]btinternet.com

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband