Leita í fréttum mbl.is

Stefnan í utanríkis- og öryggismálum

Þó vissulega hafi efnahagsmálin eðlilega yfirgnæft alla aðra umræðu í stjórnmálum þá er mikilvægt að við missum ekki sjónar á utanríkis-og öryggismálum. Öryggismál felast ekki í “eftirlitsflugi” einhverra NATO flugvéla með ærnum kostaði yfir landinu. Slíkt eru leifar úreltrar hugsunar. Í raun eru stærstu öryggismálin efnahagsmál, þar á meðal fjármálaöryggi landsmanna.

Við okkur blasir nú við gerbreytt heimsmynd. Fyrst hvarf kalda stríðið og nú hefur efnahagskerfi spilavítiskapítalismans og hugmyndafræði hennar, frjálshyggjunni verið hent á ruslahauga sögunnar. Uppbygging á nýju, réttlátu efnahagskerfi er því forgangsverkefni fyrir heimsbyggðina og á að vera kjarninn í utanríkisstefnu Íslendinga. Hér eru nokkrir punktar sem ég tel skipta mestu máli og eigi að vera forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar:

  • Alþjóðasamningar gegn skattaskjólum. Það verður að stoppa þessa geymslustaði fyrir  ránsfengi.
  • Upptaka á “Tobin skatti” sem skattleggur allar fjármálatilfærslur. Slíkt hefur tvo stóra kosti; annarsvegar slær þetta á spákaupmennsku og hins vegar myndu safnast stórar upphæðir í alþjóðlega sjóði sem nota mætti til uppbyggingar mennta og heilbrigðismálum fátækra landa og nota til þess að glíma við hinn stórfellda umhverfisvanda sem heimsbyggðin býr nú við.
  • Þróunarsamvinna verði ekki dregin saman (alla vega ekki að neinu ráði) og hún aukin þegar íslenskur efnahagur réttir úr kútnum. Sparað verði frekar í utanríkisþjónustunni.
  • Barátta fyrir jöfnuði og réttlæti í heiminum. Slík barátta er í eðli sínu alþjóðleg, Íslendingar eiga að skipa sér á bekk með framfarasinnuðum þjóðum sem vilja berjast gegn stóraukinni misskiptingu auðs mannkyns á hinum síðustu árum.
  • Leggjum Varnarmálastofnun niður og segjum okkur úr NATO. Þetta eru úreltar stofnanir, meðan landhelgisgæslan sem er okkur lífsnauðsynleg býr við fjársvelti þá erum við að eyða fé í vitleysu eins og “eftirlitsflug” NATO flugvéla og baráttu gegn ímyndaðri ógn.
  • Eflum samstarf við norðurlönd og stuðlum að eflingu Sameinuðu þjóðanna. Sjálfsagt er að líta á aðra samvinnu, svo sem við ESB og samvinnu í peningamálum. Stórar breytingar sem slíkar skal þó ávallt leggja fyrir þjóðina og hafa skal í huga að við skulum ekki samþykkja neina afarkosti vegna erfiðrar stöðu samfélags okkar í dag. Það þarf mikið til að sannfæra mig sjálfan um að ESB sé einhver kostur. En sjálfsagt að athuga málið.

Utanríkisstefna skal byggja á reisn ekki uppgjöf og undirlægju. Það er fjarstæða að halda að innganga í ESB sé einhver allsherjarlausn á vanda okkar. Í raun uppgjöf að halda slíku fram. Það sem skiptir mestu máli í dag er að slökkva eldana, ekki rífast um hvernig eldvarnareftirlitið eigi að vera. En við skuldum landsmönnum það að allar tillögur um fjölþjóðlega samvinnu séu teknar alvarlega og ekki vísað frá umræðulaust.


Húsnæðismál heimilanna þola enga bið

Það er öllum ljóst að taka verður á þeim vanda sem margir standa núna uppi fyrir vegna húsnæðislána sinna. Því miður er ástandið svo alvarlegt að þúsundir fjölskyldna sjá nú fram á að geta ekki ráðið við lán af húsnæði sínu. Þetta er sérstaklega alvarlegt hjá ungu fólki sem nýlega er komið út á húsnæðismarkaðinn og lenti í því að kaupa húsnæði þegar verðlagið var komið úr öllum böndum. Vegna þeirrar áherslu sem við höfum lagt á séreign á húsnæði og takmarkaðs leigumarkaðar þá átti fólk í raun ekkert val, til að tryggja það að vera ekki að flakka úr einu bráðabirgðahúsnæðinu í annað keypti fólk eðlilega húsnæði og tók há lán fyrir.

Það er fásinna að halda því fram að hægt sé að leysa þennan vanda með einföldum patent lausnum, svo sem með 20% niðurfellingu höfuðstóls á öllum lánum. Staða manna er mismunandi, sumir þyrftu ekki á slíku að halda og því röng forgangsröð að koma þessu fólki til aðstoðar. En aðrir, sérstaklega ungt fólk sem nýlega kom á markaðinn og þeir sem misst hafa vinnuna myndu ekki fá lausn á málum sínum með þessari niðurfellingu. Ég tel það því ljóst að taka verður mismunandi á málunum miðað við stöðu hvers fyrir sig. Slíkar lausnir ættu að vera blandaðar, efla þarf félagslega húsnæðiskerfið á ný auk þess sem endurskipulagning húsnæðislána og blandað eignarform milli félagslegs og persónulegs eignarhald væri sú lausn sem hentaði öðrum best.

Fyrsta skrefið er að taka öll lánin inn í húsnæðislánakerfi Íbúðarlánasjóðs. Þar væri hægt að taka á málunum samkvæmt þörf hvers og eins. Sumir sitja uppi með lán sem eru orðin hærri en verðmæti eignanna. Undir slíkum kringumstæðum er eðlilegast að húsnæðið væri tekið inn í félagslegt kerfi. Síðan yrði fólki gert kleyft að búa áfram í húsnæðinu, nú eða minnka eða stækka við sig samkvæmt þörfum fjölskyldunnar. Þetta yrði notað sem grunnurinn í öflugu félagsíbúðakerfi þar sem þarfir fjölskyldnanna, ekki fjárráð þeirra, myndu ráða úthlutun íbúða. Fyrir aðra gæti blandað kerfi persónulegs og félagslegs eignarhald verið lausnin. Þetta ætti helst við um fólk sem á þegar góða eign í húsnæði sínu en ræður samt ekki við afborganir. Félagslega kerfið gæti þá tekið yfir hluta eignanna og fólk borgað leigu í hlutfallið við séreign sína. Fólk gæti þá síðar leyst eignina aftur til sín. Ávallt myndi leiga í félagslega kerfinu miðast við getu og þarfir fólksins. Fyrir enn aðra myndi endurskipulagning lána vera lausnin. Mætti hér hugsa sér að taka aftur upp vaxtafrádrátt vegna húsnæðiskaupa í gegnum skattakerfið, sem fjármagnað yrði með hækkun á fjármagnstekjuskatti. Grundvallaratriðið er að mismunandi lausnir henta fólki, ekki einhverjar flatar niðurfærslur á höfuðstóli lána.

Ég hef búið um tíma í Bretlandi. Þrátt fyrir að Thatcher stjórnin hafi reynt sitt besta að ganga af félagslega húsnæðiskerfinu þar í landi dauðu, þá býr enn stór hluti landsmanna í félagslegu húsnæði og borgar þar sanngjarna leigu. Það á ekki að vera nein skömm að búa í félagslegu húsnæði. Við þurfum að komast út úr þeirri hugsanavillu. Það sem skiptir fólk mestu máli er að það hafi tryggt húsnæði sem henti þeirra þörfum og sem það ræður við afborganir af. Það skiptir í raun litlu máli hvort “eignarhald” á húsnæði fólks er hjá félagslegu kerfi eða hvort lánastofnanir eigi húsnæðið í raun. Það er allavega ljóst að við leysum ekki vanda heimilanna nema með því að koma til móts við mismunandi þarfir fjölskyldnanna í landinu og með því að byggja upp öflugt félagslegt húsnæðiskerfi.


Gott að fá góð ráð, en...

...Við verðum að ráða ferðinni sjálf. Við skulum ekki láta Alþjóða gjaldeyrissjóðinn (AGS) segja okkur fyrir verkum, sagan hefur sýnt að AGS hefur rústað hverju landinu á fætur öðru. Ég gleymi því aldrei hvernig sjóðurinn fór með lönd Asíu eftir fjármálahrunið fyrir rúmum 10 árum. Eina landið sem hélt haus var Malasía, sem neitaði að taka við sjóðnum. Malasía er í ágætri stöðu í dag, en löndin sem AGS komst með krumlurnar í eru enn að berjast við efnahagsþrengingar og fátækt sem virðist oftast vera fylgifiskur "sérfræðinga" AGS.
mbl.is Fall Straums tafði AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framboðsræða á forvalsfundi VG í Kraganum

Frambjóðendur VG í Kraganum

Kæru félagar,

Um morguninn 8. október síðastliðinn vaknaði ég upp við fréttaþátt á BBC eins og venjulega. Þar var viðtal við breska fjármálaráðherrann, Alistair Darling. Hann var að tala um bankakreppuna sem þá var komin á fullt og sérstaklega um íslensku bankana. Það sem hann sagði gerði mig kjaftstopp. Hann sakaði í raun Íslendinga um að vera svikara og fjárglæframenn og tilkynnti að hryðjuverkalögum hefði verið beitt gegn íslenskum fyrirtækjum. Mér leið illa. Hvernig í ósköpunum enduðum við hérna? Við Íslendingar, sem hingað til höfum talið okkur vera heiðarlegt fólk voru nú orðin samheiti fyrir svindlara og fjárglæframenn. Bankarnir voru hrundir og almenningur sat uppi með skuldirnar, ekki bara á Íslandi heldur út um allan heim.

Þó vissulega væri ábyrgðin fyrst og fremst hjá fjárglæframönnunum og gersamlega óhæfum ríkisstjórnum Sjálfstæðisflokksins þá fannst mér eins og ég bæri hér nokkra ábyrgð. Það var nú einu sinni mín kynslóð sem bar mesta ábyrgð á ósköpunum. Og mikið af þessu fólki þekkti ég persónulega úr afskiptum mínum af stúdentapólitíkinni fyrir meira en 20 árum. Þetta tók mig til baka. Til baka þegar ég var nýbyrjaður í háskólanum. Ég fór í framboð til 1. des nefndar, sem þá var kosin pólitískt. Við fórum fram undir kjörorðinu Frelsi, jöfnuður, réttlæti. Við unnum kosningarnar og buðum þáverandi fréttamanni af Sjónvarpinu og verkalýðsleiðtoga til að vera aðal ræðumaður hátíðarinnar. Þið vitið líklega um hvern ég er að ræða. Hátíðin tókst mjög vel og Ögmundur flutti þrumandi ræðu sem hreif alla með sér. Ég man að ég hugsaði, hér er kjarni hugsjóna minna kominn. Þær kristölluðust í þessum þremur orðum, Frelsi, jöfnuður, réttlæti.

En á þessum tíma var annað „frelsi“ að komast í tísku. Frelsi peninganna. Þessi hugmyndafræði byggði á því að það sem skipti mestu máli væri frelsið til að græða. Ég átti marga orrahríð við fólkið sem aðhylltist þessar skoðanir í Háskólanum. Sem oddviti Félags vinstrimanna í Stúdentaráði tókst ég á við Vökumenn sem margir áttu seinna eftir að verða frammámenn í Sjálfstæðisflokknum og í útrásinni. Bönkunum og Fjármálaeftirlitinu. Þessir aðilar áttu eftir að sjá hugmyndir sínar verða að veruleika og sumir áttu eftir að versla með auðinn okkar í spilavítum alþjóðlegu fjármálamarkaðanna. Og það sem verra var, þeir voru ekki einungis að versla með fjármunina okkar, þeir voru að versla með mannorð okkar og orðstrýs sem heiðarlegs og réttláts fólks.

Leið mín sjálfs átti eftir að liggja úr landi. Ég fór í framhaldsnám við bandarískan háskóla, lagði þar stund á alþjóðasamskipti og alþjóðahagfræði. Þar kynntist ég konu minni. Við bjuggum í Washington og Singapore. Loks fluttum við til London í Bretlandi, þar sem ég hef verið búsettur í um 10 ár. Ég mæli með því að búa í Bandaríkjunum til að skerpa á vinstrihugsjónunum! Og í Bretlandi til að kynnast þeim villigötum sem kratisminn getur lent á í Blairisma bölvuninni sem heltekið hefur hina bresku þjóð. En þrátt fyrir þetta „flakk“ um heiminn var allaf bara eitt heima fyrir mig. Ísland. Ég horfði upp á hið íslenska samfélag verða gærðgisvæðingunni að bráð. Andstæðingar mínir frá stúdentsárum mínum virtust hafa náð yfirhöndinni. Nú þótti ekki lengur tiltökumál að menn hefðu ævilaun verkamanna í svona „aukabónus“ ofan á milljónirnar í mánaðarlaun. Þetta voru jú slíkir afburða snillingar sem myndu bara flytja úr landi ef við borguðum þeim ekki stjarnfræðilegar upphæðir í laun.Við vitum nú að þeir hefðu betur flutt úr landi og stundað bankastarfsemi sína frá Tortola eyjum frekar en að skuldsetja íslensku þjóðina til áratuga.

Ég hef sjálfur unnið innan hugbúnaðar og fjarskiptageirans. Fyrst vann ég hjá fjölþjóðlegu fyrirtæki en síðastliðin ár hef ég unnið fyrir sprotafyrirtæki, við að flytja út íslenska hugbúnaðarþekkingu. Þetta þótti frekar ómerkilegt þar sem ég flaug ekki um á einkaþotum, ekki einu sinni á SAGA Class! En ég var samt að flytja út raunveruleg verðmæti, íslenskt hugvit. Ekki spilavítispeninga. En bankasnillingarnir hafa farið svo illa með mannorð okkar Íslendinga að nú segjumst við frekar vera norrænir heldur en íslenskir! Ég veit að svo er líka um aðra útflytjendur á raunverulegum verðmætum.


Annars er ég fullviss um að besti útflutningurinn okkar í dag er Búsáhaldabyltingin. Þannig getum við vitum að við getum endurheimt mannorð okkar sem þjóðar. Ég fann það þegar Búsáhaldabyltingin hófst að fólk erlendis hætti að líta á Ísland og íslendinga með aumkun og fyrirlitningu. Fólkið sýndi hvað í því bjó. Við erum ekki ein í þessari baráttu. Út um allan heim er fólk að berjast fyrir sömu hugsjónum og við, hugsjónunum um frelsi, jöfnuð og réttlæti. Við getum byggt upp nýtt, réttlátt samfélag þar sem græðgi og ójöfnuði er hent á ruslahauga sögunnar, þar sem hernaðarhyggju er kastað fyrir róða. Þess vegna býð ég mig fram. Og ég tel það að koma heim erlendis frá hjálpi mér að setja íslensku byltinguna í alþjóðlegt samhengi. Og gefi baráttunni nýja vídd. Enda er kjörorðið sem ég hóf minn stjórnmálaferil á fyrir yfir 20 árum er jafn satt í dag eins og það var þá. Því þetta kjörorð er kjarninn í hugsjónum okkar.

Kæru félagar, byltingin er rétt hafin. Nú þarf að bretta upp ermarnar og umbreyta samfélaginu. Það verða allir að leggjast á eitt og tryggja það að samfélagið sem við afhentum börnum okkar verði samfélag frelsis fólksins, samfélags sem byggir á jöfnuði og samfélag sem er umfram allt réttlátt. Því þá, og einungis þá er framtíðin björt. Hefjum því gunnfánann á loft og krefjumst frelsis, jöfnuðar og réttlætis!


Gott mál...

...rannsóknaraðilar þurfa að hafa möguleika á að frysta eignir manna sem hugsanlega hafa gerst brotlegi við lög. Auðvitað væri slíkt aðeins hluti af rannsóknarferli, það er enginn að tala um tilviljunarkennda upptöku á eignum. En það þarf líka að koma í veg fyrir að eignum sé skotið undan. Auðvitað átti að vera löngu búið að leyfa þetta.
mbl.is Heimild til að frysta eignir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þarf að endurskoða stjórnarskrána frá grunni...

...þetta er gott mál hjá Alþingi og þarf að keyra í gegn. Kosningar til Alþingis eru aðeins skref 2 í Búsáhaldabyltingunni, skref eitt var að koma fyrrverandi ríkisstjórn og seðlabankastjórn frá. Það hefur verið gert. En byltingin verður að halda áfram, stjórnarskrána á að endurskoða og byggja upp nýtt samfélag sem byggir á jöfnuði og réttlæti.
mbl.is Frumvarp um stjórnarskrárbreytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gangi ykkur vel

Mér líst ágætlega á þetta framboð. Það er borið uppi af mörgum þeim sem tóku þátt í búsáhaldabyltingunni í janúar. Þetta er gott og öflugt fólk. Hins vegar finnst mér vanta dálítið á hugmyndafræðina hjá framboðinu og bera dálítinn keim af "ópólitík" eða "á móti pólitík". Stefnumálin sem kynnt voru eru flest ágæt nema hugmyndin um "persónukjör". Ég er mjög fylgjandi óröðuðum flokkslistum sem myndi leifa kjósendum að velja þá frambjóðendur sem þeir treysta best. Hins vegar er hreint persónukjör vafasamt. Það leiðir til popúlisma þar sem frambjóðendur með mestu peningana gætu lofað hverju sem er en stutt síðan þá ríkisstjórn sem bakhjarlar þeirra myndu vilja. Slíkir bakhjarlar væru oftar en ekki peningamenn sem gætu "keypt" þingmenn. Bandaríkin hafa persónukjör, stjórnmálaflokkar þar í landi eru fyrst og fremst kosningabandalög. Þingmenn sem kjörnir eru hafa meira og minn frítt spil, hugsjónir skipta þar oftar en ekki litlu máli. Því vel ég frekar að styðja við bakið á VG, sem varaði stórlega við bankabólunni í stjórnarandstöðu og fékk oftar en ekki bágt fyrir. Nú sjá allir að flokkurinn hafði rétt fyrir sér allan tíman og er tilbúinn að byggja upp nýtt Ísland á grundvelli jöfnuðar og réttlætis. Með því að kjósa VG kaupa menn aldrei köttinn í sekknum. Ég hvet alla til að taka þátt í forvölum flokksins til að hafa áhrif á val frambjóðenda. Sjálfur bíð ég mig fram í 3-4 sæti í kraganum fyrir VG.
mbl.is Vilja gegnsætt réttlæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankahrunið

Þar sem ég er nú í framboði (sjá http://thjalfi.blog.is/blog/thjalfi/entry/812581/ og www.mummi.eu) þá mun ég skrifa nokkrar greinar um stjórnmál og áherslumál mín hér á síðunni. Byrjum á bankahruninu.

Öll sorgarsagan byrjaði með einkavinavæðingu bankanna. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ákváðu að skipta ríkisbönkunum milli sín, sjálfstæðismennirnir fengu að úthluta Landsbankanum til sinna manna og Framsókn fékk Búnaðarbankann. Í síðarnefnda tilfellinu var ljóst að leifarnar af SÍS veldinu höfðu ekki efni á bankanum, þó boðinn væri á útsöluverði. Var því sett af stað leikrit sem gerði nokkra einstaklinga að milljarðamæringum á einni viku. Þýskur smábanki var fenginn sem leppur og kaupverðið tekið að láni. Síðan var líklega gerður samningur við Kaupþing um að kaupa bankann af framsóknarmönnunum eftir einkavinavæðinguna. Kaupþingi var bannað að kaupa bankann beint en greiddi mun hærra verð fyrir Búnaðarbankann nokkrum vikum eftir einkavinavæðinguna. Þar urðu nokkrir einstaklingar að milljarðamæringum á nokkrum vikum. finnur_og_lafur.gif

Nú voru ríkisbankarnir komnir í einkaeigu. Landsbankinn hafði verið byggður upp af þjóðinni á meira en hundrað árum og Búnaðarbankinn var almennt talinn best rekni banki landsins. Einkavinirnir tóku því við góðu búi. Fáir spáðu því þá að þeim tækist á einungis 6 árum að setja ekki einungis þessa góðu banka á hausinn heldur alla þjóðina með þeim. Þetta virtist byrja ágætlega. Hávaxtastefna ríkisstjórnarinnar ásamt mjög lágum vöxtum á alþjóða fjármálamarkaðinum gerðu þeim kleift að græða stórlega á Íslandi. Bankastjórarnir héldu nú að þeir væru fjármálasnillingar á alþjóðamælikvarða, fóru að borga sér ofurlaun sem réttlætt voru með því að það þyrfti að borga þessum snillingum milljarða í laun, annars færu þeir bara eitthvað annað. Eftir á að hyggja hefðu þeir átt að fara eitthvað annað, t.d. út í rekstur banka á Tortola. Þá værum við ekki að borga spilavítisskuldirnar þeirra í dag. Bankastjórarnir og eigendur bankanna gerðust þotulið í orðsins fyllstu merkingu og flugu um heiminn á einkaþotum og byggðu sér sumarbústaði sem kostuðu milljarða. Í gamla dag létu menn sér nægja að eiga kofa í Þrastarskógi og elda þar á prímus. Slíkt var auðvitað ófært fyrir snillingana. Þeir spreðuðu líka peningum í að fá skemmtikrafta til að spila í afmælum sínum og keyptu stúkur á flestum fótboltavöllum í Englandi, jafnvel heilt fótboltalið. Nú var sko gaman að lifa. Á meðan á þessu stóð fór verulega að halla undan fæti hjá bönkunum.

Bankasnillingarnir ákváðu nefnilega að þeir væru að reka stór fjölþjóðafyrirtæki, ekki bara íslenska banka. Þeir notuðu gott nafn bankanna sem þeir fengu frá þjóðinni auk mannorðs okkar Íslendinga sem heiðarlegs fólks til að taka stórfelldar upphæðir að láni á ofvöxnum fjármálamörkuðum. Þeim tókst auðvitað að glata bæði orðspori bankanna og mannorði Íslendinga og mun það taka þjóðina áratugi að byggja það upp aftur. Ástæðan fyrir þessum stórfelldu lántökum til útþenslunnar var mjög einföld. Græðgi. Þó það væri hægt að fá 10-15% arðsemi á þenslutímunum var það ekki nóg. Snillingarnir fundu út að með því að taka lán til að margfalda upphæðina sem notuð var til fjárfestingar mætti margfalda ágóðann. Ég útskírði þetta í með einföldu dæmi í annarri blokkfærslu. Þetta gekk auðvitað upp svo lengi sem nægt ódýrt fjármagn var í boði og hagnaðurinn af fjárfestingunum var hærri en kostnaðurinn við lánin.

Árið 2006 lokaðist fyrir mikið af lánamöguleikum íslensku bankanna. Alþjóðlegi fjármálamarkaðurinn var farinn að hökta og menn voru farnir að efast stórlega um hversu sterkir íslensku bankarnir væru í raun. Nú var aðeins tvennt til ráða hjá bönkunum. Skrúfa ofan af útþenslunni með því að minka lán (sem fóru að stórum hluta til eigendanna) og selja eignir. Þetta vildu bankasnillingarnir ekki, þeir voru orðnir vanir því að lifa hátt og fá stóra bónusa. Þá datt Landsbankanum snilldarráð í hug. Opna internetbanka í London og bjóða mun hærri vexti en nokkur annar banki (Kaupþing gerði þetta líka í gegnum dótturfélög). Venjulega þegar menn bjóða hærra verð fyrir peninga en aðrir eru þeir með rosalega flott bísnissplan. Nú hefur komið í ljós að svo var ekki farið um íslensku bankasnillingana. Þeir söfnuðu á örskömmum tíma nær allri landsframleiðslu Íslands í innistæður og héldu áfram fjárhættuspilunum eins og áður. Og hrósuðu sér af snilldinni. Með þessu frömdu þeir einn versta glæpinn og gerðu á endanum útaf við mannorð allrar íslensku þjóðarinnar. The rest is history eins og menn segja á ensku.


Ríkistjórnarflokkana í meirihluta

Ég tel það sjálfsagt að VG og Samfylkingin lýsi því yfir fyrir kosningar að flokkarnir ætli að starfa saman í ríkisstjórn eftir kosningar. Gæti það verið með Borgarahreyfingunni, nái sá flokkur flugi. Að ganga "óbundin" til kosninga á ekki að vera til umræðu hjá vinstriflokkunum, það er lífsnauðsynlegt fyrir þjóðina að hér taki við vinstristjórn sem byrjaði að byggja upp nýtt Ísland, nýtt samfélag byggt á jöfnuði og réttlæti. Byltingin er ekki búin, hún er rétt að byrja.
mbl.is Gæti orðið mesta vinstri sveifla sem sést hefur hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð tillaga

Með tillögunni um óraðaða lista, óski flokkar eftir því, er verið að gera mjög jákvæða breytingu á kosningalögunum. Fólk vill kjósa einstaklinga. En fólk vill líka kjósa flokka, svo það "kaupi ekki köttinn í sekknum" og viti hvaða lífsskoðanir viðkomandi hefur. Kjósendur flokkanna myndu þá velja þá frambjóðendur sem þeir vilja kjósi þeir svo. Hér er ekki verið að skilda neinn flokks til að gera þetta þannig að varla er hægt að sjá að nokkur þingmaður geti verið á móti þessu.
mbl.is Leggja fram frumvarp um persónukjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðmundur Auðunsson
Guðmundur Auðunsson

Vill leggja sitt af mörkum til að byggja upp nýtt samfélag jöfnuðar og réttlætis.

mummi[á]btinternet.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband