Leita í fréttum mbl.is

Stefnan í utanríkis- og öryggismálum

Þó vissulega hafi efnahagsmálin eðlilega yfirgnæft alla aðra umræðu í stjórnmálum þá er mikilvægt að við missum ekki sjónar á utanríkis-og öryggismálum. Öryggismál felast ekki í “eftirlitsflugi” einhverra NATO flugvéla með ærnum kostaði yfir landinu. Slíkt eru leifar úreltrar hugsunar. Í raun eru stærstu öryggismálin efnahagsmál, þar á meðal fjármálaöryggi landsmanna.

Við okkur blasir nú við gerbreytt heimsmynd. Fyrst hvarf kalda stríðið og nú hefur efnahagskerfi spilavítiskapítalismans og hugmyndafræði hennar, frjálshyggjunni verið hent á ruslahauga sögunnar. Uppbygging á nýju, réttlátu efnahagskerfi er því forgangsverkefni fyrir heimsbyggðina og á að vera kjarninn í utanríkisstefnu Íslendinga. Hér eru nokkrir punktar sem ég tel skipta mestu máli og eigi að vera forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar:

  • Alþjóðasamningar gegn skattaskjólum. Það verður að stoppa þessa geymslustaði fyrir  ránsfengi.
  • Upptaka á “Tobin skatti” sem skattleggur allar fjármálatilfærslur. Slíkt hefur tvo stóra kosti; annarsvegar slær þetta á spákaupmennsku og hins vegar myndu safnast stórar upphæðir í alþjóðlega sjóði sem nota mætti til uppbyggingar mennta og heilbrigðismálum fátækra landa og nota til þess að glíma við hinn stórfellda umhverfisvanda sem heimsbyggðin býr nú við.
  • Þróunarsamvinna verði ekki dregin saman (alla vega ekki að neinu ráði) og hún aukin þegar íslenskur efnahagur réttir úr kútnum. Sparað verði frekar í utanríkisþjónustunni.
  • Barátta fyrir jöfnuði og réttlæti í heiminum. Slík barátta er í eðli sínu alþjóðleg, Íslendingar eiga að skipa sér á bekk með framfarasinnuðum þjóðum sem vilja berjast gegn stóraukinni misskiptingu auðs mannkyns á hinum síðustu árum.
  • Leggjum Varnarmálastofnun niður og segjum okkur úr NATO. Þetta eru úreltar stofnanir, meðan landhelgisgæslan sem er okkur lífsnauðsynleg býr við fjársvelti þá erum við að eyða fé í vitleysu eins og “eftirlitsflug” NATO flugvéla og baráttu gegn ímyndaðri ógn.
  • Eflum samstarf við norðurlönd og stuðlum að eflingu Sameinuðu þjóðanna. Sjálfsagt er að líta á aðra samvinnu, svo sem við ESB og samvinnu í peningamálum. Stórar breytingar sem slíkar skal þó ávallt leggja fyrir þjóðina og hafa skal í huga að við skulum ekki samþykkja neina afarkosti vegna erfiðrar stöðu samfélags okkar í dag. Það þarf mikið til að sannfæra mig sjálfan um að ESB sé einhver kostur. En sjálfsagt að athuga málið.

Utanríkisstefna skal byggja á reisn ekki uppgjöf og undirlægju. Það er fjarstæða að halda að innganga í ESB sé einhver allsherjarlausn á vanda okkar. Í raun uppgjöf að halda slíku fram. Það sem skiptir mestu máli í dag er að slökkva eldana, ekki rífast um hvernig eldvarnareftirlitið eigi að vera. En við skuldum landsmönnum það að allar tillögur um fjölþjóðlega samvinnu séu teknar alvarlega og ekki vísað frá umræðulaust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Auðunsson
Guðmundur Auðunsson

Vill leggja sitt af mörkum til að byggja upp nýtt samfélag jöfnuðar og réttlætis.

mummi[á]btinternet.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband