Leita í fréttum mbl.is

Framboðsræða á forvalsfundi VG í Kraganum

Frambjóðendur VG í Kraganum

Kæru félagar,

Um morguninn 8. október síðastliðinn vaknaði ég upp við fréttaþátt á BBC eins og venjulega. Þar var viðtal við breska fjármálaráðherrann, Alistair Darling. Hann var að tala um bankakreppuna sem þá var komin á fullt og sérstaklega um íslensku bankana. Það sem hann sagði gerði mig kjaftstopp. Hann sakaði í raun Íslendinga um að vera svikara og fjárglæframenn og tilkynnti að hryðjuverkalögum hefði verið beitt gegn íslenskum fyrirtækjum. Mér leið illa. Hvernig í ósköpunum enduðum við hérna? Við Íslendingar, sem hingað til höfum talið okkur vera heiðarlegt fólk voru nú orðin samheiti fyrir svindlara og fjárglæframenn. Bankarnir voru hrundir og almenningur sat uppi með skuldirnar, ekki bara á Íslandi heldur út um allan heim.

Þó vissulega væri ábyrgðin fyrst og fremst hjá fjárglæframönnunum og gersamlega óhæfum ríkisstjórnum Sjálfstæðisflokksins þá fannst mér eins og ég bæri hér nokkra ábyrgð. Það var nú einu sinni mín kynslóð sem bar mesta ábyrgð á ósköpunum. Og mikið af þessu fólki þekkti ég persónulega úr afskiptum mínum af stúdentapólitíkinni fyrir meira en 20 árum. Þetta tók mig til baka. Til baka þegar ég var nýbyrjaður í háskólanum. Ég fór í framboð til 1. des nefndar, sem þá var kosin pólitískt. Við fórum fram undir kjörorðinu Frelsi, jöfnuður, réttlæti. Við unnum kosningarnar og buðum þáverandi fréttamanni af Sjónvarpinu og verkalýðsleiðtoga til að vera aðal ræðumaður hátíðarinnar. Þið vitið líklega um hvern ég er að ræða. Hátíðin tókst mjög vel og Ögmundur flutti þrumandi ræðu sem hreif alla með sér. Ég man að ég hugsaði, hér er kjarni hugsjóna minna kominn. Þær kristölluðust í þessum þremur orðum, Frelsi, jöfnuður, réttlæti.

En á þessum tíma var annað „frelsi“ að komast í tísku. Frelsi peninganna. Þessi hugmyndafræði byggði á því að það sem skipti mestu máli væri frelsið til að græða. Ég átti marga orrahríð við fólkið sem aðhylltist þessar skoðanir í Háskólanum. Sem oddviti Félags vinstrimanna í Stúdentaráði tókst ég á við Vökumenn sem margir áttu seinna eftir að verða frammámenn í Sjálfstæðisflokknum og í útrásinni. Bönkunum og Fjármálaeftirlitinu. Þessir aðilar áttu eftir að sjá hugmyndir sínar verða að veruleika og sumir áttu eftir að versla með auðinn okkar í spilavítum alþjóðlegu fjármálamarkaðanna. Og það sem verra var, þeir voru ekki einungis að versla með fjármunina okkar, þeir voru að versla með mannorð okkar og orðstrýs sem heiðarlegs og réttláts fólks.

Leið mín sjálfs átti eftir að liggja úr landi. Ég fór í framhaldsnám við bandarískan háskóla, lagði þar stund á alþjóðasamskipti og alþjóðahagfræði. Þar kynntist ég konu minni. Við bjuggum í Washington og Singapore. Loks fluttum við til London í Bretlandi, þar sem ég hef verið búsettur í um 10 ár. Ég mæli með því að búa í Bandaríkjunum til að skerpa á vinstrihugsjónunum! Og í Bretlandi til að kynnast þeim villigötum sem kratisminn getur lent á í Blairisma bölvuninni sem heltekið hefur hina bresku þjóð. En þrátt fyrir þetta „flakk“ um heiminn var allaf bara eitt heima fyrir mig. Ísland. Ég horfði upp á hið íslenska samfélag verða gærðgisvæðingunni að bráð. Andstæðingar mínir frá stúdentsárum mínum virtust hafa náð yfirhöndinni. Nú þótti ekki lengur tiltökumál að menn hefðu ævilaun verkamanna í svona „aukabónus“ ofan á milljónirnar í mánaðarlaun. Þetta voru jú slíkir afburða snillingar sem myndu bara flytja úr landi ef við borguðum þeim ekki stjarnfræðilegar upphæðir í laun.Við vitum nú að þeir hefðu betur flutt úr landi og stundað bankastarfsemi sína frá Tortola eyjum frekar en að skuldsetja íslensku þjóðina til áratuga.

Ég hef sjálfur unnið innan hugbúnaðar og fjarskiptageirans. Fyrst vann ég hjá fjölþjóðlegu fyrirtæki en síðastliðin ár hef ég unnið fyrir sprotafyrirtæki, við að flytja út íslenska hugbúnaðarþekkingu. Þetta þótti frekar ómerkilegt þar sem ég flaug ekki um á einkaþotum, ekki einu sinni á SAGA Class! En ég var samt að flytja út raunveruleg verðmæti, íslenskt hugvit. Ekki spilavítispeninga. En bankasnillingarnir hafa farið svo illa með mannorð okkar Íslendinga að nú segjumst við frekar vera norrænir heldur en íslenskir! Ég veit að svo er líka um aðra útflytjendur á raunverulegum verðmætum.


Annars er ég fullviss um að besti útflutningurinn okkar í dag er Búsáhaldabyltingin. Þannig getum við vitum að við getum endurheimt mannorð okkar sem þjóðar. Ég fann það þegar Búsáhaldabyltingin hófst að fólk erlendis hætti að líta á Ísland og íslendinga með aumkun og fyrirlitningu. Fólkið sýndi hvað í því bjó. Við erum ekki ein í þessari baráttu. Út um allan heim er fólk að berjast fyrir sömu hugsjónum og við, hugsjónunum um frelsi, jöfnuð og réttlæti. Við getum byggt upp nýtt, réttlátt samfélag þar sem græðgi og ójöfnuði er hent á ruslahauga sögunnar, þar sem hernaðarhyggju er kastað fyrir róða. Þess vegna býð ég mig fram. Og ég tel það að koma heim erlendis frá hjálpi mér að setja íslensku byltinguna í alþjóðlegt samhengi. Og gefi baráttunni nýja vídd. Enda er kjörorðið sem ég hóf minn stjórnmálaferil á fyrir yfir 20 árum er jafn satt í dag eins og það var þá. Því þetta kjörorð er kjarninn í hugsjónum okkar.

Kæru félagar, byltingin er rétt hafin. Nú þarf að bretta upp ermarnar og umbreyta samfélaginu. Það verða allir að leggjast á eitt og tryggja það að samfélagið sem við afhentum börnum okkar verði samfélag frelsis fólksins, samfélags sem byggir á jöfnuði og samfélag sem er umfram allt réttlátt. Því þá, og einungis þá er framtíðin björt. Hefjum því gunnfánann á loft og krefjumst frelsis, jöfnuðar og réttlætis!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Auðunsson
Guðmundur Auðunsson

Vill leggja sitt af mörkum til að byggja upp nýtt samfélag jöfnuðar og réttlætis.

mummi[á]btinternet.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband