Leita í fréttum mbl.is

Mér kemur þetta ekki við

Í dag og á morgun eru kosningar til Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ). Það er ánægjulegt að félag sem ég tók þátt í að stofna fyrir 20 árum sé við stjórnvölin í SHÍ og er það að sjálfsögðu von mín að Röskva vinni annan góðan sigur nú. En það er ekki það sem mig langar að fjalla um hér, mig langar að fjalla um þessa áráttu að "stúdentar eigi ekki að skipta sér að málum sem koma þeim ekki við". Kveikjan að þessum skrifum var stórgóð grein sem ég sá á bloggi Bryndísar Hlöðversdóttur og nota ég hér að uppistöðu komment sem ég kom fram með á síðu hennar. 

Vaka, félag "lýðræðissinnaðra" stúdenta er með það á stefnu sinni að SHÍ eigi aldrei að fjalla um mál sem "koma stúdentum ekki beint við", þ.e. eigi einungis að fjalla um lánamál stúdenta, húsnæðismál þeirra, prófamál og bókakost. SHí megi þá t.d. aldrei álykta gegn fjöldamorðum á íröskum borgurum sem framkvæmd hafa verið með stuðningi "hinna viljugu þjóða", þ.á.m. okkar íslendinga. Þetta "ópólitíska japl" meðal stúdentahreyfinga er í besta falli hlægilegt og í raun móðgun við baráttu stúdenta fyrir mannréttindum og farmförum í mannkynssögunni. Auðvitað eiga stúdentar og fulltrúar þeirra að hafa skoðanir og sjálfsagt að þeir og stofnanir þeirra taki þátt í pólitískri umræðu.

Þessi stefna er ekki ný og Vaka var ekki alltaf svona "ópólitísk". Þessi "ópólitíska" plága kom fyrst inn í stúdentahreyfinguna frá framsóknarmönnunum sem stofnuðu Félag Umbótasinnaðra Stúdenta fyrir nær 30 árum. Þegar það félag var dautt vegna pólitísks sinnuleysis félaga þeirra og klofnings (sjá t.d. þetta), þá sá Vaka sér leik á borði að taka upp þetta "ópólitíska" bull til að fela óvinsælar hægriskoðanir sínar. Ég get tekið tvö dæmi um fáránleika þessa. Við vinstrimenn bárum upp ályktunartillögu á stúdentaráðsfundi árið 1988 þess efnis að Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) lýsti yfir stuðningi við baráttu stúdentasamtaka ANC gegn Apartheid stjórninni í Suður Afríku. Þáverandi formaður SHÍ, Sveinn Helgi Sveinsson, bar þegar upp frávísunartillögu (sem á endanum var samþykkt 16-14) þar sem þetta væri mál sem kæmi stúdentum á Íslandi ekkert við! Eftir hávaðarifrildi mín og Sveins Andra á fundinum lét Sveinn m.a.s. bóka að það kæmi ekki til greina að styðja við bakið á hryðjuverkasamtökunum ANC! Annað dæmi um þennan fáránleika var þegar Röskvuliðar í SHÍ báru upp tillögu um að ráðið tæki á móti fulltrúum stúdenta frá Tékkóslóvakíu, sem voru framarlega í baráttunni gegn einræðisstjórn kommúnista, og lýstu yfir stuðningi við lýðræðisbaráttu þeirra. Þessu vísaði meirihluti Vöku líka frá og það kom því í hlut Röskvu að bjarga mannorði íslenskra stúdenta og taka á móti Tékkaslóvökunum. Til að toppa þetta svo var SHÍ ein af fáum samtökum stúdenta í heiminum sem ekki mótmæltu fjöldamorðum kínverskra stjórnvalda á stúdentum 1989.

Ungt fólk á að vera róttæk samviska samfélagsins. Sjálfsagt er að stúdentar séu þar í fararbroddi. Það er því fáránlegt að samtök stúdenta útiloki mál sem fjalli ekki um "bein" hagsmunamál þeirra. Slíkt gerir ekkert annað en að senda dapurleg skilaboð til æsku landsins um að vera ekki að ibba sig um eitthvað sem þeim "kemur ekki við". Það kemur okkur við að kvenstúdentar sem ekki eru huldir frá toppi til táar í Írak fá sýru í andlitið og er jafnvel nauðgað og drepið. Það kemur okkur við að taka eigi stúdent í Afganistan af lífi fyrir það eitt að dreifa grein um kvenréttindi og íslam. Við erum þátttakendur í stríðinu í Afganistan. Stúdentar eiga að vera berjandi á dyr utanríkisráðuneytisins og krefjast þess að stjórnvöld í Afganistan frelsi þennan stúdent. Verði það ekki gert eigum við þegar í stað að hætta öllum stuðningi við stjórnvöld í Afganistan og gera það opinberlega. Þetta kemur okkur við. Þetta kemur stúdentum við. Og þetta er mál sem SHÍ á að taka upp á arma sína, því þetta er í samhengi hlutanna miklu mikilvægara en hvort próflausnum er skilað einni viku fyrr eða síðar. Stúdentar eiga að vera í fararbroddi í þessari baráttu. Það er því dapurlegt til þess að hugsa að það skuli vera stefna félaga stúdenta að "þetta komi okkur ekki við" og því eigi ekki að skipta sér að þessu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Með þessu ópólitíska tali er verið að gelda pólitíska vitund ungs fólks í háskóla. Það þjónar kannski ákveðnum hagsmunum en er samfélaginu ekki hollt.

Auðvitað verður að draga einhver ósýnileg mörk varðandi hvað stúdentaráð á að fjalla mikið um hin ýmsu mál en það má ekki gelda umræðuna fyrirfram þannig að íslenskir stúdentar verði utangátta í þessu efni.

Áfram Röskva!

Kristjana Bjarnadóttir, 6.2.2008 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Auðunsson
Guðmundur Auðunsson

Vill leggja sitt af mörkum til að byggja upp nýtt samfélag jöfnuðar og réttlætis.

mummi[á]btinternet.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband