Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Að vera gjörsamlega úr tengslum við samfélagið

Hinir nýju eigendur Morgunblaðsins, sem keyptu blaðið eftir að almenningur tók á sig milljarða skuldir blaðsins, virðast gersamlega vera úr tengslum við raunveruleikann. Morgunblaðið bar lengi höfuð og herðar yfir önnur dagblöð á Íslandi. Þó það væri oftast mjög flokksrækið fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þá þótti flestum vænt um Moggann. Hann hafði ákveðinn sjarma. mbl.is var síðan velheppnuð internetsvæðing og margir, sem eins og ég, hafa fengið fréttir sínar daglega af þeirri síðu. En kvótagreifarnir sem keyptu Moggann af okkur almenningi virðast ekki hafa verið að kaupa sér fréttamiðil, heldur tæki til ómerkilegs áróðurs. Hvernig er annars hægt að skilja það að ráðinn sé ritstjóri sem ekki er einungis mest hataði pólitíkus Íslands, heldur einnig sá sem ber mesta ábyrgð á hruninu frá stjórnvalda hálfu. Ég spyr því, hvernig geta nýir eigendur verið svo gersamlega úr tengslum við samfélagið að þeir ráði ritstjóra sem vissulega mun kosta blaðið þúsundir lesenda og leiða til snarlækkaðra auglýsingatekna. Eru þeir virkilega svo efnaðir að þeir hafi efni á því að reka dýran áróðurssnepil úr eigin vasa? Ef svo er, er ekki kominn tími til að taka til baka kvóta almennings sem þeir hafa sölsað undir sig?
mbl.is Nýir ritstjórar til starfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigur heilbrigðar skynsemi

Stundum standa menn frammi fyrir kostum sem eru allir slæmir. Icesave reikningar sem "snillingarnir" í Landsbankanum sendu þjóðinni voru slíkt dæmi. Í þeirri stöðu var enginn kostur góður. Við getum ekki með góðu móti mismunað innlendum og erlendum innistæðueigendum Landsbankans og sitjum við því uppi með sukkreikning fjárglæframannanna. Hins vegar er ljóst að við getum ekki tekið á okkur of íþyngjandi skuldbindingar, það skuldum við framtíðinni. Lendingin á Alþingi er því til fyrirmyndar. Meira að segja stjórnarandstaðan virðist hafa skilið alvarleika þessa máls (fyrir utan Framsóknarflokkinn, en hann er hættur að skipta máli í pólitík). Breið samstaða var nauðsynleg til að ná sátt um þetta. Stóru sigurvegararnir í þessu eru VG "uppreisnarmennirnir", sérstaklega Ögmundur og Lilja Mósesdóttir. Þau hafa sannað það í þessu máli öllu að skinsamlegar athugasemdir við upprunalega frumvarpið geta skilað árangri ef menn taka á málinu af festu og alvöru. Árni Þór og Guðbjartur í fjárlaganefnd eiga líka heiður skilið fyrir vasklega framgöngu. Til hamingju Alþingi.

Við megum hins vegar aldrei missa sjónar af því hverjir bera ábyrgð á ósköpunum. Landsbankafjárhættuspilararnir og ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins sem leyfðu þeim að spila með eignir og mannorð íslendinga í alþjóðlegum fjárhættuspilum bera sökina. Núverandi ríkisstjórn er einfaldlega í þeirri ömurlegu stöðu að hreinsa upp skítinn. Mönnum er hollt að hafa það í huga þegar þeir réttilega sýna reiði sína yfir þeirri ömurlegu stöðu sem við erum í.


mbl.is Hagvöxtur stýri greiðslum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt að fara í viðræður

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að ólíklegt sé að okkur sé betur borgið innan Evrópusambandsins heldur en utan. Ég er enn þeirrar skoðunar. Þó Evrópusambandið sé á ákveðin hátt gamaldags tollabandalag sem múrar þá inni sem teljast verðugir á kostað hinna þá er það í dag meira en það. Evrópusambandið er líka pólitískt fyrirbæri, þar sem fjölþjóðleg samvinna á sér stað. Slíkt hefur bæði kosti og galla. Helsta vandamálið er lýðræðishalli sambandsins. Ákvarðanir eru fyrst og fremst gerðar af skriffinnabatteríi, ekki lýðræðislega kjörnu Evrópuþingi. Ákvarðanir eru líka aðallega teknar af þeim þremur stóru, Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi og litlu löndin hafa þar lítið að segja. Því miður hefur sagan sýnt okkur að Evrópusambandið stendur fyrst og fremst vörð um fjármagnseigendur og fyrirtæki, þó ákveðin félagsleg og umhverfisleg sjónarmið hafi þar fengið einhvern framgang. Því er mér það efins að út frá þessum pólitíska lýðræðishalla og litlum áhrifum smáþjóða sé rétt að ganga í sambandið. Þessi skoðun mín kemur þjóðerniskennd ekkert við, enda er ég gegnheill alþjóðasinni. Margir virðast þó rugla saman alþjóðahyggju og svæðahyggju (tollabandalagshugsunarhætti).

Út frá efnahagslegum sjónarmiðum er ég líka efins um að rétt sé að ganga í sambandið. Okkar efnahagskerfi er allt öðruvísi upp byggt heldur en flest kerfin í ESB, og á ég þar ekki einungis við fiskinn. Sem dæmi má taka að það má færa frekar sterk efnahagsleg rök fyrir því að Svíþjóð eigi heima í sambandinu vegna þess að efnahagskerfi þeirra er mjög svipað því þýska, en Noregur eigi ekki heima þar vegna þess að efnahagur þess lands byggir á öðru. Ísland á enn síður heima þar út frá þessum sjónarmiðum. Auk þess er íslenskt efnahagskerfi mjög viðkvæmt fyrir "yfirtöku" stórfyrirtækja og gæti í versta falli orðið "Vestfirðir" sambandsins. Það kemur því ekki til greina að opna á nokkurn hátt upp náttúruauðlindir okkar, þær eiga að vera í sameign þjóðarinnar og það á að binda í stjórnarskrá. Það eru líka nokkur efnahagsleg rök sem mæla með inngöngu, og sjálfsagt að ræða þau. En mér sýnist að efnahagsrökin hallist frekar að því að vera utan ESB.

Þrátt fyrir ofansagðar skoðanir mínar tel ég að við verðum að fara í viðræður. Þetta mál getur ekki hangið lengur yfir okkur og þjóðin verður að fá að taka ákvörðun hvort við viljum ganga inn í sambandið. Þingið á því að samþykkja aðildarviðræður. Ég mun fylgjast vel með viðræðunum og skoða alla kosti og galla þegar kemur að ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu. Enn ég segi að lokum að það verður erfitt að sannfæra mig um réttmæti inngöngu og áskil ég mér rétt til að leggjast gegn því í þjóðaratkvæðagreiðslu. En það er ekki rétt að fella viðræðurnar á þinginu í dag.


mbl.is „Bjart yfir þessum degi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsætisráðherra virðist ekki enn vera búin að læra af reynslunni

Það sem forsætisráðherra virðist vera að mæla með er að almenningur eigi að borga brúsann, koma fótunum undir bankana á ný og setja þá síðan í hendur nýrra (eða sömu) "víkinganna". Sem sagt, almenningur borgar tapið en einkaaðilar taka gróðann. Slíkt væri pilsfaldakapítalismi af verstu tegund og við ættum að hafa lært af reynslunni. Landsbankinn var rekinn af ríkinu í yfir 100 ár en það tók "snillingana" einungis 6 ár að éta bankann upp og skilja almenning eftir með hundruða milljarða skuldasúpu. Þetta má aldrei gerast aftur.

Vandamálið er einfalt. Það er ekki hægt að loka fjármálakerfi landsins þannig að almenningur (ríkið) kemur alltaf til með að vera "lender of last resort". Slíkt er auðvitað óþolandi fyrir almenning. Einfaldasta leiðin er að ríkið reki stóran banka sem lagaður væri að íslenskum aðstæðum. Ríkið þarf ekki að reka 3 banka. Hugsanlega mætti selja einn bankann í hendur erlendra aðila sem útibú, þannig að þeir (og land þeirra) tækju ábyrgð á rekstrinum. Annan banka má hugsanlega "einkavæða" með dreifðri eignaraðild, svo lengi sem ríkið haldi áfram að reka stóran og sterkan banka. Þá er engin hætta á að fjármálakerfið lamist fari einkabanki á hausinn. Tryggingasjóður gæti tryggt innistæður upp að ákveðnu marki slíks banka, en allt annað væri áhætturekstur. Ef bankinn færi á hausinn þá væri ekkert "elsku mamma", fjármálakerfið myndi ekki lamast því ríkisbankinn væri enn til staðar og einkabankanum því leyft að sigla sinn sjó. Að einkavæða allt fjármálakerfið á ný er mesta fásinna og ég trúi því ekki að ríkisstjórnin fari út í slíka dellu, allavega ekki með VG innanborðs.


mbl.is Bankar einkavæddir innan 5 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið besta mál...

...auðvitað á að leggja þessa fáránlegu stofnun niður. Verkefni þessarar stofnunar geta vel átt heima í einhverri skúffu í Utanríkisráðuneytinu sem einhver gæti haldið utanum ásamt öðru mikilvægara. Treysti því að í framhaldinu verði þessu fáránlega flugi herþotna yfir landinu með gífurlegum kostnaði hætt. Nær að fljúga vélum landhelgisgæslunnar oftar til að passa upp á fiskimiðin.
mbl.is Varnarmálastofnun lögð niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisfjármál í rétta átt en meira þarf að gera

Þetta ríkisfjármálafrumvarp er í rétta átt en meira þarf auðvitað að gera. Vissulega má ekki skera að ráði niður í velferðarkerfinu, en réttlætanlegt að skerða bætur hjá þeim sem best eru staddir um tíma með hækkunum á skerðingum vegna aukatekna. Í prinsíppinu finnst mér þó að áunnar bætur eigi að almennt að vera óskertar en hækka á móti skatta. Þó er þetta rétt ákvörðun með tilliti til rústanna sem Sjálfstæðisflokkurinn skilur eftir sig.

Hvers vegna er "Varnarmálastofnun" ekki lögð af og sparaður rúmur milljarður? Okkur stendur engin ógn af erlendum herjum og því mesta bruðl að vera með slíka stofnun. Hins vegar er það mjög jákvætt að lækka á laun hæst launuðu starfsmanna ríkisins með því að flytja þær ákvarðanir inn í kjaradóm og tryggja að enginn hafi hærri laun en forsætisráðherra.

Það sem mér finnst helst stinga í augun er að hátekjuskatturinn er settur á "tímabundið". Það er fjarstæða, það er mikið réttlætismál að þeir sem hafa hæstu launin borgi hærri skatt, og það ekki tímabundið. En almennt er ég ánægður með fjárlagafrumvarpið og trúi því að tekið verði á vanköntunum í náinni framtíð.


mbl.is Ríkisfjármálafrumvarp lagt fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endanleg jarðarför "New Labour"

Hrun "Verkamanna"flokksins breska í Evrópukosningunum er sögulegt. Flokkurinn er einungis 3. stæðsti flokkurinn, minni en breski Sjálfstæðisflokkurinn sem vill ganga út úr ESB. Virðist nú komið að endalokum þrautargöngu "New Labour" klíkunnar sem tók yfir Verkamannaflokkinn fyrir nær 15 árum. Hámark niðurlægingarinnar var að flokkurinn varð nú í fyrsta sinn ekki stærsti flokkurinn í Wales síðan 1918 (þegar Frjálslyndir voru stærri) og nú er Íhaldsflokkurinn í fyrsta sinn stærsti flokkur Wales í yfir 100 ár, það í þessu höfuðvígi Verkamannaflokksins, þaðan sem Nye Bevan kom og vöggu Verkamannaflokksins er að finna.

 Þessi ósköp byrjuðu með stórsigri Verkamannaflokksins í kosningunum 1997. Flokkurinn hafði verið tekinn yfir af tvíeykinu Tony Blair og Gordon Brown, sem voru bæði miklir keppinautar en líka miklir samherjar í "New Labour" verkefninu. Hugmyndafræðin var einföld. Eftir eyðimerkurgöngu Verkamannaflokksins á 9. áratugnum höfðu þeir kumpánar gefist upp á vinstristefnu og ákváðu að breyta Verkamannaflokknum í thatcheristaflokk með félagslegu ívafi. Þeir töldu að baráttunni um hugmyndirnar væri lokið, eina sem Verkamannaflokkurinn gæti gert væri að verða að hægriflokki með félagslegu ívafi. Helsta vandamál "New Labour" klíkunnar var að flokksmenn Verkamannaflokksins voru upp til hópa vinstrimenn þannig að það varð að reyna að læða hægristefnunni framhjá flokksmönnum. Flokkurinn læddi í gegn gríðarlegri einkavæðingu í gegnum fyrirbæri sem kallað var "Public Private Partnership" (PPP). Í raun fól þetta í sér að almenningur tók á sig alla áhættuna en einkaaðilar fengu áskrift af miklum gróða í skiptum fyrir fjárfestingu í almannaframkvæmdum. Með þessu var hægt að blekkja almenning með því að ríkið væri ekki að taka á sig skuldir, með því að lofa því að framtíðarkynslóðir myndu borga reikninginn. Þessi "snilld" var fundin upp af Gordon Brown. "New Labour" klíkan gaf frat í almenna félagsmenn Verkamannaflokksins, þetta voru allt vinstrisinnar hvort sem var. Auglýsingastofur voru fengnar til að keyra kosningabaráttur í stað aktívista, ímyndarsérfræðingar umkringdu ríkisstjórnina sem tróð hverju óvinsæla málefninu ofan í kokið á almenningi í óþökk flokksmanna. Hámarki náði hryllingurinn með innrásinni í Írak, þar sem  "New Labour" stillti sér upp með George Bush og Davíð Oddsyni gegn almenningsáliti heimsins. Stuðningsmenn Verkamannaflokksins fengu á endanum nóg. Flokkurinn hafði yfirgefið þau, flokksmenn sögðu sig úr flokknum í hrönnum og nú hættu þeir að nenna jafnvel á kjörstað

"New Labour" er nú kominn á leiðarenda. Þeir kumpánar Blair og Brown skilja nú eftir hreyfingu vinstrimanna í Bretlandi í rjúkandi rúst. Spurningin er nú hvort hægt sé að bjarga flokknum sem tók baráttumenn áratugi að byggja upp. Það góða við þessi úrslit er að Brown og "New Labour" klíkan eru búin að vera, bara tímaspursmál hvernær hún gefst upp. Það var auðvitað skelfilegt að hópur innan Samfylkingarinnar á Íslandi var að gæla við "New Labour" stefnuna. Sem betur fer virðist flokkurinn hafa snúið af þeirri braut. Það sorglega hins vegar í bresku Evrópukosningunum var að fasistarnir í British National Party náðu tveimur mönnum kjörnum. Sýnir það hversu skelfilega arfleið "New Labour"skilur eftir sig.


mbl.is Breski Verkamannaflokkurinn beið afhroð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að taka vaxtaákvarðanir aftur til ríkisstjórnarinnar?

Enn og aftur lækka stýrivextir Seðlabankans allt of lítið. Virðist sem AGS stjórni vaxtastefnunni nær alfarið. Þetta getur ekki gegnið lengur svona. Nú er það spurningin hvort færa eigi aftur loka vaxtaákvörðunina til Fjármálaráðherra þannig að Seðlabankinn verði einungis umsagnaraðili. Fyrr á tímum voru það stjórnvöld sem tóku ákvarðanir um stýrivexti. Þegar frjálshyggjutrúarbrögðin voru sem sterkust þá varð það keyrt í gegn á vaxtaákvarðanir og peningamálastefna væri "tæknileg", þ.e. ætti einungis að viða við verðbólgumarkmið. Málið er að vaxtaákvarðanir eru miklu stærra mál og verður að taka með tilliti til breiðra efnahagshagsmuna, ekki einungis innan þröngs peningastjórnunarramma. Ég tel kominn tíma á að taka valdið aftur til kjörinna fulltrúa fólksins, þannig að breið efnahagssjónarmið ráði ákvörðuninni, ekki þröngar tæknilegar ákvarðanir.
mbl.is Slaknað á peningalegu aðhaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við getum sett AGS stólinn fyrir dyrnar

Lilja Mósesdóttir hagfræðingur segir á Alþingi að við eigum að setja Alþjóða gjaldeyrissjóðnum (AGS) stólinn fyrir dyrnar og henda honum út ef þeir koma í veg fyrir stórfellda vaxtalækkun í júní. Þetta er hárrétt hjá þingminninum. AGS vinnur enn eftir úreltri hugmyndafræði frjálshyggjunnar og virðast enn við sama heygarðshornið þó eftir sjóðinn liggi slóð misheppnaðra og hörmulegra efnahagsráðstafanna, eins og ég og fleiri bentum á þegar fyrri ríkisstjórn fór bónarleið til sjóðsins og vældi út peninga með úreltum skilyrðum. AGS er fyrst og fremst þjónustuaðili alþjóðlegra skuldara sem krefjast þess að almenningur borgi fyrir áhættulán sem veitt voru ótrúverðugum bankastofnunum. Íslenskur almenningur ber ekki ábyrgð á ósköpunum og það verður einfaldlega að benda ASG á. Núverandi ríkisstjórn erfði ósköpin og nú er kominn tími til að segja AGS fyrir verkum, annars verði þeim hent út.

Fjármálaráðherra á að setja niður kröfur á blað, fá þær samþykktar í ríkisstjórn og taka þær til sjóðsins.  Kröfurnar verða einfaldar. Númer 1, ríkisstjórnin ætlar að lækka vexti stórlega og það strax. Númer 2, ríkisstjórnin mun ekki hlusta á neinar kröfur AGS um einkavinavæðingu eða kollsteypuaðgerða í þágu kröfuhafa. Númer 3, sjóðurinn muni ekki komast upp með að setja nein skilyrði um efnahagsstjórnun, það sé Alþingis og ríkisins að ákveða til hvaða aðgerða sé gripið. Sjóðnum sé velkomið að veita ráðgjöf og ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu hlusta á öll góð ráð.

Gangi AGS ekki að þessum kröfum ríkisstjórnarinnar mun lánunum verða skilað og sjóðnum hent út úr landinu. Við höfum vel efni á því svo lengi sem bið tryggjum að seðlabankar Norðurlanda innkalli ekki lán sín. Til þess þarf pólitískar viðræður sem ég treysti núverandi stjórnvöldum vel til að gera. Annars tel ég ekki að sjóðurinn þori að ganga ekki að skilyrðum okkar. Pólitískt yrði það gríðarlegt áfall fyrir sjóðinn ef Ísland myndi segja honum upp, AGS er gríðarlega óvinsæll um þessar mundir og myndi varla þola þau PR ósköp sem myndu fylgja uppsögn Íslands á samningum við sjóðinn. Ísland myndi hins vegar skora mörg prik ef sjóðnum yrði hent út, þannig að ég óttast ekki afleiðingarnar. Til skamms tíma gæti þetta orðið erfitt, en til lengri tíma er hávaxtastefna og bullhagfræði AGS miklu hættulegri.


mbl.is Ætti að afþakka ráðgjöf AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Guðmundur Auðunsson
Guðmundur Auðunsson

Vill leggja sitt af mörkum til að byggja upp nýtt samfélag jöfnuðar og réttlætis.

mummi[á]btinternet.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband