Leita í fréttum mbl.is

Samfélagslaun

Vinkona mín Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi biður um meiri umræður um skatta- og samfélagsbótamál á bloggsíðu sinni. Það hafa kviknað nokkuð athyglisverðar umræður um þetta á síðunni hennar og er það vel, enda er að mínu áliti löngu kominn tími til að menn ræði skatta og launajöfnunarmál í alvöru.

Þróunin á vesturlöndum hefur verið sú sl. 25 ár eða svo að færa sig frá því að nota skattakerfið til launajöfnunar. En á móti hefur þróunin einnig verið sú að fara að skerða bætur eftir tekjum, auk þess að taka upp aukin "þjónustugjöld" fyrir notkunina á almannaþjónustunni. Mér finnst þetta skelfileg þróun. Til að sækja sjálfsagða almannaþjónustu og bætur þurfa menn nú að "gerast ölmusumenn" með því að sanna hversu tekjulágir þeir eru. Öryrkjar búa við óásættanlega framfærslu og til að menn skrimti koma menn fram með það ráð að gefa öryrkjum afsláttarkort sem menn geta síðan veifað því til sönnunar að þeir séu svo aumir að þeir hafi ekki efni á því að borga fullt verð. Slíkt er ekki einungis niðurlægjandi fyrir viðkomandi einstaklinga, heldur einnig fyrir samfélagið allt.

Það er réttur allra að geta búið mannsæmandi lífi í samfélaginu. Okkar ríka samfélagi ber skylda til þess að svo sé, enginn á að þurfa að leita eftir ölmusu nema í undantekningartilfellum (oftast one-off sjokk sem getur alltaf komið upp hjá fólki). Ég vil að við losum okkur út úr þessu kraðaki bóta og uppbóta, styrkja og skattaafslátta. Það er kominn tími til að við tökum upp samfélagslaun sem nægi öllum til framfærslu. Mætti t.d. nefna töluna 150-200 þúsund fyrir hvern einstakling yfir 18 ára aldri og lægri upphæð fyrir börn sem gengu til foreldra eða forráðamanna. Á einu bretti er hægt að losna við opinberan ellilífeyri, trygginga og örorkubætur (vissulega er of aukakostnaður við að lifa með t.d. örorku en slíkt yrði borið upp af samfélaginu í gegnum heilbrigðiskerfið), námslánin myndu hverfa, engin þörf fyrir atvinnuleysisbætur og félagslega framfærslu o.sv.fr. Hugsið ykkur bara hversu mikla skriffinnsku væri hægt að losna við, hugsið ykkur bara hversu mikið væri hægt að spara með því að hætta að þurfa að rannsaka hverjir væru að svindla á kerfinu. Það gæti enginn svindlað, allir hefðu sama framfærslurétt!

Nú segðu e.t.v. margir hvernig í ósköpunum sé hægt að fjármagna þetta. Menn gleyma þar einföldum hlut. Einstaklingslaun myndu almennt lækka sem um nemur þessari upphæð! Hægt væri því að skattleggja fyrirtækin út frá umsvifum, því þau myndu njóta samfélagslaunanna. Til að „refsa“ ekki mannfrekum fyrirtækjum á kostnað fjármagnsfrekra og til að „refsa“ ekki smærri fyrirtækjum á kostnað hinna stærri sé ég þennan skatt fyrir mér sem einhverskonar blöndu af sköttum á veltu (sem er mjög góður mælikvarði á umsvif) og sköttum á ráðningar (þar sem fyrirtækin njóta samfélagslaunanna í hlutfalli við fjölda starfsmanna). Það þarf að finna jafnvægi þar á milli, því ekki viljum við að kerfið stuðli að vinnuþrælkun (þ.e. fyrirtækin leitist við að ráða of fáa starfsmenn). Hvað þá með vinnuhvatann, hætta menn ekki bara að vinna? Ég hef einfaldlega meiri trú á einstaklingum en svo að þeir vilji leggjast í kör. Aftur á móti myndi þetta gefa barnafjölskyldum meiri sveigjanleika, þ.e. vinna minna og eyða meiri tíma með börnunum meðan þau eru ung (ég óttast ekkert að konurnar verði sendar heim, það skip hefur góðu heilli siglt). Auk þess myndi slíkt gefa frumkvöðlum tækifæri til að byggja upp nýsköpunarfyrirtæki án þess að þurfa að óttast að þeir eigi ekki fyrir salti á grautinn sinn. Niðurstaðan yrði sú að slíkt kerfi myndi samtímis viðurkenna rétt allra til mannsæmandi launa en á sama tíma efla einstaklinginn og gera hann sjálfan að sínum gæfu smiði, lífið hættir að snúast um það hvort þú eigir fyrir næstu húsaleigu.

Vissulega hafa slíkar hugmyndir komið fram áður. Og vissulega eru þær ekki útfærðar nákvæmlega, enda er markmiðið með að setja þær fram að skapa umræðu. Auðvitað verða alltaf einhverjir sem ekki myndu skilja að slíkum rétti sem samfélagslaun eru fylgir samfélagsskilda. En slík vandamál eru líka til staðar í núverandi kerfi, það þarf hvort sem er að taka á slíku. Upptaka samfélagslauna er svo byltingarkennd að það tekur ákveðin tíma fyrir samfélagið að aðlagast nýjum aðstæðum. En ávinningurinn er þess virði. Hugsið ykkur bara, fólk hættir að þurfa að ganga til kóngs og prests til að fæða börnin sín. Og hugsið ykkur alla skriffinnskuna sem sparast (sem ætti að kæta hægrimennina!), væri ekki betra að opinberir starfsmenn geti einbeitt sér að bæta almannaþjónustuna frekar en að eyða tíma sínum í að reikna bætur og bótaskerðingar.


Framtíðarleiðtogi Verkamannaflokksins?

Jæja, það var kominn tími til að menn reyni að feta sig frá skelfilegum tíma Tony Blair og þjónkunarstefnu hans við glæpastjórnina í Washington. Ég hef alltaf haft álit á David Miliband, tel að hann sé "laumu" vinstrisinni, sem lenti í vondum félagsskap. Miliband varð ungur handgenginn Tony Blair og sýndi honum ávallt hollustu, en ég tel að það hafi verið vegna þess að Miliband er pragmatisti sem komst þeirri (röngu) niðurstöðu að blairisminn hafi verið nauðsynlegur til að bjarga Verkamannaflokknum út úr eyðimerkurgöngu 9. áratugarins. Raunin varð hins vegar sú að Tony Blair og klíka hans gekk nærri því að flokknum dauðum. En það er fjarri því að Miliband sé kristilegur hægrimaður eins og Tony Blair og það er opinbert leyndarmál að honum leið illa undir utanríkisstefnuharmleik Blair, en var of hollur "guðföður" sínum til að gera það opinbert. Það er vitað að Miliband varð æfur þegar Blair studdi árásir Ísraelsmanna á Líbanon í fyrra, þó hann hafi einungis æst sig á ríkisstjórnarfundi. Það gefur Miliband sterka stöðu í þessu máli að hann er af gyðingaættum.

David Miliband er sonur eins merkasta marxíska fræðimanns Breta, Ralph Miliband og er það allavega von mín að eitthvað af róttækni föðurins hafi smitast yfir á soninn. Ralph Miliband lést árið 1994, jafn sannfærður sósíalisti og hann var alla sína æfi. Ralph komst við illan leik undan nasistunum frá Belgíu 16 ára gamall árið 1940 og settist að í Bretlandi og stofnaði þar fjölskyldu, meðan faðir hans gekk í Rauða herinn þar sem hann bjó í Varsjá. Auk David er sonurinn Ed á breska þinginu.


mbl.is Bretar fjarlægjast bandaríska utanríkisstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langt sumarfrí

Jæja, þá er tími kominn til að byrja aftur að blogga eftir 3 mánaða sumarfrí! Maður er búinn að vera upptekinn með fjölskyldunni og síðan hefur verið vitlaust að gera í vinnunni. En nóg um það, það er gaman að vera kominn aftur, enda er bloggið hluti af tengslum mínum við landið mitt, eins og er með marga íslendinga sem búsettir eru erlendis. Lofa samt ekki hversu duglegur ég verð, en reyni mitt besta!

Hvað krefst þessara auknu varna?

Mér finnst það sorglegt að sjá jafn merkan stjórnmálamann og Ingibjörgu Sólrúnu, fyrrverandi herstöðvarandstæðing, falla fyrir vælinu um að landið geti ekki verið "óvarið". Hvers vegna í ósköpunum þurfum við á þessum norsku flugvélum að halda? Og hvers vegna þurfum við að eyða stórfé í slíka vitleysu? Í alvöru, fyrir hverjum eiga þessar fáránlegu herþotur að verja okkur gegn? Hryðjuverkamönnum? "Halló Noregur, okkur grunar að Al Kaída ætli að sprengja styttuna af Jóni Sigurðssyni, getið þið sent herþoturnar"? Eða á norski herinn að verja okkur gegn Rússum og Kínverjum? Íran? Norður Kóreu? Bandaríkjunum? Veran í NATO er þá gagnslaus eftir allt, veitir okkur enga vörn? Er þá ekki eins gott að yfirgefa samtökin?

Þessar þotur eru auðvitað brandari og enn fáránlegra að eyða peningum í þetta. Auðvitað var ljóst að ákveðin útgjöld myndu aukast þegar bandaríski herinn fór loksins. Hér erum við að tala um kostnað við reksturs Keflavíkurflugvallar og kostnað við björgunarþyrlur. Ekkert er sjálfsagðara en að bera kostnað af slíku. En eyðsla í einhvern hlægilegan "varnarsamning" við Noreg, sem augljóslega er gerður vegna þess að sjálfstæðismenn geta ekki sætt sig við það að þeir höfðu rangt fyrir sér eftir allt, herinn á Keflavíkurflugvelli var vita gagnlaus vegna einhverra ímyndaðrar varnarþarfar. Það er sorglegt að sjá annars ágætan stjórnmálaflokk eins og Samfylkinguna og (mögulega) einhvern besta utanríkisráðherra sem við höfum átt falla fyrir svona "varnarþarfardellu".


mbl.is Utanríkisráðherra ræddi varnarmálin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Call my Bluff

Þetta er mjög athyglisverð tillaga hjá Rússum að setja upp eldflaugavarnarkerfi í Aserbaídsjan. Í raun munu viðbrögð Bandaríkjastjórnar við henni sýna hvað markmið þeirra er með slíku kerfi. Ef markmiðið er að verjast gegn eldflaugaárás frá "rouge nation", menn eru þá helst að tala um Norður Kóreu, Íran og hugsanlega Pakistan undir annarri ríkisstjórn, þá er Aserbaídsjan miklu betri staðsetning en Pólland eða Tékkland og það meikar líka sens að vinna saman með Rússum að slíkum vörnum. En ef markmiðið, eins og Pútín heldur fram en bandaríkjastjórn þvertekur fyrir, er að setja upp varnarkerfi gegn Rússum og byrja þar með nýtt vopnakapphlaup, þá mun bandaríkjastjórn halda Miðevrópustaðsetningunni til streitu. Svo einfalt er það.
mbl.is Aserbaídsjan fagnar tillögum Pútíns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigurvegararnir eyddu minnstu

Það er athyglisvert að fylgið virðist vera í öfugu hlutfalli við eyðslu í auglýsingar! VG eyddi minnstu, og vann stærsta kosningasigurinn! Sjálfstæðisflokkurinn eyddi líka frekar litlu og vann ágætan sigur. Hins vegar eyddu Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn, sem töpuðu samanlagt um 10% mestu. Það eru allavega góðar fréttir að peningar virðast ekki ráða öllu um úrslit kosninga.

mbl.is Samfylkingin og Framsóknarflokkur vörðu mestu fé í auglýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin fær minni völd í samstjórn með D en Framsóknarflokkurinn hafði!

Ég ætla varla að trúa því, í stað þess að fá uppstokkun á ríkisstjórn sem löngu er kominn tími til þá virðist Samfylkingin sætta sig við það að setjast í hægristjórn með minni völd en Framsóknarflokkurinn hafði. Almennt fær Samfylkingin sömu ráðuneytin og örflokkurinn Framsóknarflokkurinn hafði, nema að þeir gefa eftir heilt ráðuneyti (landbúnaðarráðuneytið) og skipta á Samgöngu- og Heilbrigðisráðuneytunum til að gefa Sjálfstæðisflokknum betra spil til að einkavæða heilbrigðiskerfið! Þetta er mjög dapurlegt.

Það vita allir að samkvæmt íslenskri stjórnskipan þá eru ráðherrar gífurlega valdamiklir og ráðherraskipan skiptir því miklu máli. Það er með ólíkindum að Samfylkingin hafi ekki krafist fjármála og dómsmálaráðuneytanna. Ingibjörg hefði átt að gerast Fjármálaráðherra og Össur Utanríkisráðherra. Björn Bjarnason virðist áfram eiga að fá áfram frítt spil í dómsmálaráðuneytinu og Sjálfstæðisflokkurinn kemst með einkavæðingarkrumlur sínar í heilbrigðismálin eins og þeir stefndu alltaf að. Sjálfstæðisflokkurinn fær sem sé allt sem þeir vilja og Samfylkingin sættir sig við færri brauðmola en Framsókn hafði. Ég verð að segja að þetta er dapur staða, ekki hefði ég búist við að "desperasjón" Samfylkingarinnar að komast í ríkisstjórn væri svona mikil. Frown


mbl.is Ný ríkisstjórn kynnt fyrir forseta Íslands innan skamms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný helmingaskiptastjórn

Jæja, núna virðist ný helmingaskiptastjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar vera að smella saman. Þetta var auðvitað það sem við var að búast, þrátt fyrir það að Framsókn virtist reyna að leggja flokkinn endanlega niður með því að hanga í áfram í fráfarandi stjórn. Vissulega hefði verið gott að losna við Sjálfstæðisflokkinn líka úr stjórn en svona fóru nú kosningarnar, stjórnin hélt velli og gaf þar með Sjálfstæðisflokknum óvenju sterka stöðu sem erfitt var að vinna gegn.

Þessi ríkisstjórn getur þróast á alla vegu. Þetta er ekki ný"Viðreisnarstjórn", Samfylkingin er hvorki Alþýðuflokkurinn né Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn kemur aldrei til með að ráða öllu eins og í stjórn með A og síðustu 12 ár með B. Hins vegar er ákveðin hætta á að þetta verði hægristjórn ef hægriöflin í Samfylkingunni ná yfirhöndinni. Það verður því gífurlega mikilvægt hlutverk stjórnarandstöðunnar Vinstri grænna (ekki búast við miklu af smáflokkunum Framsókn og Frjálslyndum) að halda stjórninni við efnið og draga hana til vinstri. Hvort ný ríkisstjórn verður hægristjórn eða miðjustjórn verðum við síðan að sjá.


mbl.is Ingibjörg Sólrún: Skipting kynja í ráðherraembættum jöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þarf að refsa Framsóknarflokknum oft þar til hann nær skilaboðunum?

Ég tel það fjarstæðu fyrir Framsóknarflokkinn að halda áfram núverandi ríkisstjórn nema flokkurinn sé haldinn sterkri sjálfseyðingarhvöt. Hvað þarf þjóðin oft að refsa Framsóknarflokknum í kosningum áður en flokkurinn nær þessu? Með því að fara í enn eina hægristjórn er flokkurinn að segja skýrum rómi að hjá honum snúist þetta bara um völd. Skynsamlegast væri fyrir Framsóknarflokkinn að verja minnihlutastjórn V og S falli, þannig gæti flokkurinn slegið tvær flugur í einu höggi. Endurbyggt sig utan stjórnar en samt sýnt ábyrgð með því að stuðla að breytingum sem kjósendur augljóslega vildu. Efast samt um að exbé nái þessu, enda virðist flokkurinn orðinn samvaxinn Sjálfstæðisflokknum. Einstakir flokksmenn hafa þó augljóslega skilið skilaboðin frá kjósendum.

Hvað er þá í stöðunni? Helst vildi ég að vinstriflokkarnir stæðu saman, teldi slíkt farsælast fyrir samfélagið. En Sjálfstæðisflokkurinn er ólíklegur til að fara í þriggja flokka stjórn. Þá er skárra að sjá DV stjórn en DS, því ég er hræddur um að hin síðarnefnda myndi leiða til þess að hægri armur Samfylkingarinnar næði yfirhöndinni og við gætum séð hreina hægristjórn sem gæti m.a.s. gengið svo langt að einkavæða Landsvirkjun. DV stjórn myndi hins vegar geta haft skýr markmið, sérstaklega í efnahagsmálum. VG myndi að sjálfsögðu gera ákveðnar lágmarkskröfur, m.a. um stóriðjustopp, skattatilfærslur til baka til láglaunafólks frá hálaunafólki og svo því að hætta blindum stuðningi við klerkastjórnina í Washington. Ætti ekki að vera of erfitt þar sem margir Sjálfstæðismenn eru búnir að fá nóg af glæpum bandaríkjastjórnar. Vissulega væri DV stjórn enginn ídeal kostur, auðvitað væri best að losna við báða ríkisstjórnarflokkana úr stjórnarráðinu. Þess vegna vildi ég helst sjá minnihlutastjórn V og S. En svona fóru nú kosningarnar einu sinni og landið þarf á að halda öflugri ríkisstjórn sem getur hreinsað upp eftir eyðslufyllerí síðustu ára.


mbl.is Framsóknarmenn taka afstöðu til stjórnarsamstarfs í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokaspretturinn

Núna er bara lokaspretturinn eftir. Vinstriflokkarnir virðast vera á góðri siglingu, Samfylkingin hefur sérstaklega sýnt frábæran endasprett og óska ég þeim til hamingju með það. Ég sem vinstrimaður lít fyrst á hvort ríkisstjórnin sé fallin, síðan samanlagt fylgi vinstriflokkanna og loks á fylgi minna manna í VG. Vissulega vildi ég gjarnan sjá minn flokk sem hæstan, sérstaklega finnst mér það miður að Guðfríður Lilja í kraganum virðist úti. Hvet alla vinstrimenn til að tryggja kjör hennar. VG er í þeirri aðstöðu að mögulega tvöfalda fylgi sitt, sem væri stórkostlegt. Allt yfir 15% væri auðvitað sigur en fylgi undir 14% vonbrigði vegna góðs gengis í skoðanakönnunum. Ég hvet alla vinstrimenn að tryggja allavega að VG verði stærri en Framsókn, annað væri stórslys. En vissulega skiptir mestu máli að fella ríkisstjórnina og þessi könnun Stöðvar 2 lofar því góðu. Smile Nú þurfa allir að tryggja að allir vinir og vandamenn kjósi og felli ríkisstjórnina!


mbl.is Samfylking og Framsóknarflokkur bæta við sig samkvæmt könnun Stöðvar 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðmundur Auðunsson
Guðmundur Auðunsson

Vill leggja sitt af mörkum til að byggja upp nýtt samfélag jöfnuðar og réttlætis.

mummi[á]btinternet.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband