Leita í fréttum mbl.is

Húsnæðismál heimilanna þola enga bið

Það er öllum ljóst að taka verður á þeim vanda sem margir standa núna uppi fyrir vegna húsnæðislána sinna. Því miður er ástandið svo alvarlegt að þúsundir fjölskyldna sjá nú fram á að geta ekki ráðið við lán af húsnæði sínu. Þetta er sérstaklega alvarlegt hjá ungu fólki sem nýlega er komið út á húsnæðismarkaðinn og lenti í því að kaupa húsnæði þegar verðlagið var komið úr öllum böndum. Vegna þeirrar áherslu sem við höfum lagt á séreign á húsnæði og takmarkaðs leigumarkaðar þá átti fólk í raun ekkert val, til að tryggja það að vera ekki að flakka úr einu bráðabirgðahúsnæðinu í annað keypti fólk eðlilega húsnæði og tók há lán fyrir.

Það er fásinna að halda því fram að hægt sé að leysa þennan vanda með einföldum patent lausnum, svo sem með 20% niðurfellingu höfuðstóls á öllum lánum. Staða manna er mismunandi, sumir þyrftu ekki á slíku að halda og því röng forgangsröð að koma þessu fólki til aðstoðar. En aðrir, sérstaklega ungt fólk sem nýlega kom á markaðinn og þeir sem misst hafa vinnuna myndu ekki fá lausn á málum sínum með þessari niðurfellingu. Ég tel það því ljóst að taka verður mismunandi á málunum miðað við stöðu hvers fyrir sig. Slíkar lausnir ættu að vera blandaðar, efla þarf félagslega húsnæðiskerfið á ný auk þess sem endurskipulagning húsnæðislána og blandað eignarform milli félagslegs og persónulegs eignarhald væri sú lausn sem hentaði öðrum best.

Fyrsta skrefið er að taka öll lánin inn í húsnæðislánakerfi Íbúðarlánasjóðs. Þar væri hægt að taka á málunum samkvæmt þörf hvers og eins. Sumir sitja uppi með lán sem eru orðin hærri en verðmæti eignanna. Undir slíkum kringumstæðum er eðlilegast að húsnæðið væri tekið inn í félagslegt kerfi. Síðan yrði fólki gert kleyft að búa áfram í húsnæðinu, nú eða minnka eða stækka við sig samkvæmt þörfum fjölskyldunnar. Þetta yrði notað sem grunnurinn í öflugu félagsíbúðakerfi þar sem þarfir fjölskyldnanna, ekki fjárráð þeirra, myndu ráða úthlutun íbúða. Fyrir aðra gæti blandað kerfi persónulegs og félagslegs eignarhald verið lausnin. Þetta ætti helst við um fólk sem á þegar góða eign í húsnæði sínu en ræður samt ekki við afborganir. Félagslega kerfið gæti þá tekið yfir hluta eignanna og fólk borgað leigu í hlutfallið við séreign sína. Fólk gæti þá síðar leyst eignina aftur til sín. Ávallt myndi leiga í félagslega kerfinu miðast við getu og þarfir fólksins. Fyrir enn aðra myndi endurskipulagning lána vera lausnin. Mætti hér hugsa sér að taka aftur upp vaxtafrádrátt vegna húsnæðiskaupa í gegnum skattakerfið, sem fjármagnað yrði með hækkun á fjármagnstekjuskatti. Grundvallaratriðið er að mismunandi lausnir henta fólki, ekki einhverjar flatar niðurfærslur á höfuðstóli lána.

Ég hef búið um tíma í Bretlandi. Þrátt fyrir að Thatcher stjórnin hafi reynt sitt besta að ganga af félagslega húsnæðiskerfinu þar í landi dauðu, þá býr enn stór hluti landsmanna í félagslegu húsnæði og borgar þar sanngjarna leigu. Það á ekki að vera nein skömm að búa í félagslegu húsnæði. Við þurfum að komast út úr þeirri hugsanavillu. Það sem skiptir fólk mestu máli er að það hafi tryggt húsnæði sem henti þeirra þörfum og sem það ræður við afborganir af. Það skiptir í raun litlu máli hvort “eignarhald” á húsnæði fólks er hjá félagslegu kerfi eða hvort lánastofnanir eigi húsnæðið í raun. Það er allavega ljóst að við leysum ekki vanda heimilanna nema með því að koma til móts við mismunandi þarfir fjölskyldnanna í landinu og með því að byggja upp öflugt félagslegt húsnæðiskerfi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Auðunsson
Guðmundur Auðunsson

Vill leggja sitt af mörkum til að byggja upp nýtt samfélag jöfnuðar og réttlætis.

mummi[á]btinternet.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband