Leita í fréttum mbl.is

Hvernig 2% ávöxtun verður að 47% tapi

Núna þegar menn eru að vakna upp við það að íslenska samfélagið sé meira og minna komið á hausinn velta menn sér eðlilega fyrir sér hvað gerðist eiginlega. Það er freistandi að kenna um einstaklingum (vondum kapítalistum eins og seðlabankastjóri og skósveinn hans, Hannes Hólmsteinn Gissurarson segja). Það er freistandi að kenna um útlendingum (þetta er allt Brown að kenna). Þó vissulega spili einstaklingar inn í söguna þá er þetta hrun fyrst og fremst hrun ákveðinnar hugmyndafræði, nýfrjálshyggjunnar (neo-liberalism), og því í raun sambærilegt við það sem gerðist við hrun austur evrópsku tilskipunarhagkerfanna fyrir tæpum 20 árum. Ég ætla hér að draga upp ofureinfaldaða lýsingu á hvað setti í raun stóran hluta fjármálakerfis heimsins á hausinn.
 
Í lok síðustu aldar var mikil uppsveifla í efnahag heimsins, svokölluð punktur com uppsveifla. Þetta var keyrt áfram af þeirri trú að ný tækni hefði breytt heiminum svo mikið að kreppur væru liðin tíð og framleiðniaukning væri svo svakaleg að leiðin væri bara upp á við. Þegar loftið fór úr bólunni uppúr 2000 fóru fjármagnseigendur að leita að nýjum gróðatækifærum og fasteignir urðu fyrir valinu. Þetta leiddi til gífurlegs hækkunar á fasteignavirði og fjármagnseigendur sáu ofsagróða og feitir bónusar leituðu til "snillinganna" sem stjórnuðu fjármálastofnunum. Þetta var allt tryggt í fasteignum og því stimplað sem "örugg" fjárfesting. En það eru takmörk fyrir því hversu mörg "góð" lán er hægt að veita. Þetta leiddi til vaxtar í svokölluðum undirmálslánum (sub-prime). Þessi lán voru talin sæmilega örugg þar sem verð á fasteignum hélt áfram að vaxa og áhættunni var síðan dreift (eða svo héldu menn) með því að pakka saman milljónum lána í fjárfestingapakka. Hugmyndin var að þó margir myndu ekki reynast borgunarmenn þá skipti það ekki máli vegna þess að áhættunni hefði verið dreift á nógu mörg lán. Nú vita menn að þetta reyndist della og húsnæðisverð hrundi (eins og auðvitað var hægt að sjá fyrir). Slíkt sjokk, þó stórt væri, hefði fjármálakerfið vel átt að geta tekið, sérstaklega eftir uppsafnaðan hagnað fyrri ára.
 
En, nú kemur stóra ennið. Bónusfurstarnir töldu sig vera komna í áskrift á feitum bónusum og ofsagróða. En þegar hagnaðar prósentan dróst stórlega saman þá fundu þeir upp "snilldarlausn". Fjárfestann skiptir einungis máli hversu mikinn hagnað hann hefur af fjárfestingu sinni. Þú ert t.d. með milljón sem þú vilt fjárfesta. Bankasnillingarnir fundu upp "snilldarlausn" til að ná 20-40% hagnaði á fjárfestingu (return on equity). Það skipti ekki máli (héldu þeir) þó að einungis væri hægt að skrapa 2-3% hagnað út úr kerfinu. Í stað þess að fjárfesta 1 milljón voru 9 milljónir teknar að láni til viðbótar. Þannig að heildarfjárfestingin var 10 milljónir. Ef peningarnir "kostuðu" segjum 7% á ári þá kostuðu 9 milljónirnar sem þú fékkst að láni 630.000. Þú fjárfestir 10 milljónir, færð 10% hagnað (1.000.000), borgar 630.000 og átt eftir 370.000. Manstu að þú lagðir bara af stað með milljón, þannig að hagnaður þinn eru risa 37% af fjárfestingunni! En hvað gerist ef "hagnaðurinn" er einungis 2% af fjárfestingunni? Ef þú hefðir bara fjárfest þína milljón fengir þú samt 20.000 í ágóða. En þar sem þú tókst 9 milljónir í lán þá færð þú einungis 200.000 fyrir 10 milljónirnar. Þar sem vextirnir eru 630.000 þá hefur þú allt í einu tapað 470.000 á milljóninni þinni eða 47%! Þetta er á ofureinfaldaðan hátt það sem gerðist. Nægir peningar voru í umferð, sérstaklega vegna geðveikrar fjármálastjórnar BNA (stórlækkaðir skattar og stórhækkuð ríkisútlán) og gífurlegs sparnaðar í Asíu sem fjármagnaði eyðslufylleríið. Þetta er nákvæmlega það sem gerðist í risastóru mæli í fjármálakerfi heimsins og á Íslandi. Þessi spilaborg hrundi auðvitað og það all svakalega.
 
Eins og sjá má þá spiluðu fjármálafurstarnir í raun gríðarlegt fjárhættuspil með peningana okkar. Og nú sitjum við uppi með tapið. Vissulega er sökin þeirra, en sökin er ekki síður kerfisins sem leifði þeim að gera þetta. Það kerfi er nú gjaldþrota. Vissulega skal sækja á þá einstaklinga sem bera ábyrgð á hruninu, sömu einstaklinga sem taldir voru rosalegir snillingar sem þurfti að borga ofurlaun fyrir snilldina og settu okkur á hausinn. En það er kerfið sem er fyrst og fremst gjaldþrota. Nokkrir munu halda áfram að berja hausnum við steininn og kenna um "vondum kapítalistum" þegar það er í raun kerfið sem er sökudólgurinn. Spilavítiskapítalisminn er hruninn. Við skulum ekki láta blekkjast að þeim "hreintrúuðu", sem ekki síður en þeir sem trúðu blint á austurevrópska tilskipunarhagkerfið áttu sumir erfitt með að sætta sig við að heimsmynd þeirra er hrunin. Þessa menn þarf að hreinsa út. Nú er það okkar hlutverk að segja hingað og ekki lengra, og byggja upp manneskjulegt samfélag jöfnuðar og réttlætis á rústunum. Þá munum við byggja eitthvað varanlegt fyrir börnin okkar, ekki bara skilja þau eftir með skuldir eyðslufyllerís okkar. Nú er lag.

mbl.is Ástandið verra en þjóðargjaldþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir góðan pistill sem einfaldar og útskýrir það sem hefur verið gerast í þjóðfélaginu fyrir framan okkur öll en við vorum blind og vildum ekki sjá.

Helga Finnsdóttir (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 12:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Auðunsson
Guðmundur Auðunsson

Vill leggja sitt af mörkum til að byggja upp nýtt samfélag jöfnuðar og réttlætis.

mummi[á]btinternet.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband