Leita í fréttum mbl.is

Af samfélagsvæddu tapi og einkavæddum gróða

Samfélagið hefur ekki efni á því að fjármálakerfið fari á hausinn. Þetta vita fjármálastofnanir. Þetta leiðir til hættulegrar áhættutöku í von um ofsagróða og feita bónusa. Ef allt fer til andskotans, eins og það hefur gert núna, þá vita bankamennirnir að þeir geta alltaf hlaupið í pilsfaldinn hennar mömmu. Slíkt er auðvitað óþolandi fyrir almenning sem situr uppi með tapið, meðan að bónusfurstarnir hafa allt sitt á hreinu eigandi feita bónusa fyrri ára í sjóðum meðan almenningur situr uppi með tapið af spilavítiskapítalismanum. Slíkt er auðvitað óþolandi. Það á auðvitað að snarhækka hátekjuskatta og gera skattana afturvirka á bónusa fyrri ára. Það er lágmarkskrafa almennings.

Þó pakkinn fyrir bandaríkjaþingi hafi skánað þá er grundvallarhugmyndin sú sama, þ.e. að ríkið taki yfir eitruðu fjárfestingapakkana með lágmarks kröfum í staðin. Í raun þýðir þetta að tapið er samfélagsnýtt en gróðinn heldur áfram að vera í einkaeign. Slíkt gengur auðvitað ekki upp. Íslenska leiðin er betri, það er eðlilegt að krefjast þess að fá eignarhlut almennings í þeim bönkum sem bjargað er. Þess vegna lýsi ég yfir stuðningi við samfélagsvæðingu Glitnis. Nú þarf bara að tryggja það að bankinn verði ekki seldur aftur á útsölu til einkavina. Það er krafa okkar eigenda Glitnis.

Spilavítiskapítalisminn gengur ekki upp, það sjá allir í dag. Fjármálakerfið hefur í raun einungis eitt samfélagslegt hlutverk, að miðla sparnaði í fjárfestingar. Menn virðast hafa misst sjónar á þessu og haldið að peningar verði til í fjármálakerfinu. Kerfið er auðvitað bara miðlari og stendur sig illa sem slíkur. Það fyrsta sem á að gera er að slá á spákaupmennsku með því að skattleggja allar fjármálatilfærslur með alþjóðlegum samningum. Með því að setja 1/2% til 1% skatt á fjármálatilfærslur eru tvær flugur slegnar í einu höggi. Spákaupmennska myndi stórlækka og tugmilljarðar bandaríkjadala myndu safnast í sjóði árlega sem nota ætti í uppbyggingu í þróunarlöndunum. Hægt væri að útrýma fátækt og byggja upp mennta og heilbrigðiskerfi fátækra landa með þessum fjármunum. Þetta eruð auðvitað ekki nýjar hugmyndir, hafa verið settar fram af samtökunum ATTACC. En nú ætti allavega öllum að vera ljóst að þetta á að taka upp. Hingað og ekki lengra. 


mbl.is Önnur atkvæðagreiðsla á Bandaríkjaþingi í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Sæll og takk fyrir síðast, dásamlegt kvöld sem hleypti í mig nýjum félagshyggjuneista.

Skelfilegir tímar sem nú eru í gangi, eina sem ég get vonað er að þetta verði til að það sljákki örlítið í frjálshyggjunni og böndum verði komið á að fjármálaumhverfið.

Ekki veit ég hvort sú leið sem farin var um helgina sé sú besta, skelfilegt að þurfa að efast um heilindi þeirra sem að þessu stóð.

Nú er tími rauða fánans. Mig dreymir um Röskvustjórn..........þó ég þurfi að bíða.

Kristjana Bjarnadóttir, 1.10.2008 kl. 19:58

2 Smámynd: Einar Ólafsson

Þakka þér fyrir að minna á hið alþjóðlega samhengi, hugmyndina um Tobin-skattinn og ATTAC-samtökin (Association pour la Taxation des Transactions). Það væri auðvitað full ástæða til að reyna að stofna ATTAC-samtök hér, en samtökin eru þegar starfandi í hátt í fjörutíu löndum,  þ.á.m. átján Evrópulöndum og öllum Norðurlöndunum nema Íslandi og eru mjög virk og á miklu víðara sviði en það sem varðar hugmyndina um þennan skatt. Þau hafa m.a. verið mjög virk í World Social Forum og öðrum staðbundnum "Social Forum"  (http://tinyurl.com/4hgesa).  Ögmundur Jónasson flutti reyndar tillögu á Alþingi árið 2000 um upptöku Tobin-skattsins hér, sjá:

 http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=126&mnr=11

Og mikið rétt, nú er tími rauða fánans. Minni á gamalt kjörorð liðinna samtaka: Verkalýðurinn ber ekki ábyrgð á kreppu auðvaldins! 

Einar Ólafsson, 1.10.2008 kl. 21:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Auðunsson
Guðmundur Auðunsson

Vill leggja sitt af mörkum til að byggja upp nýtt samfélag jöfnuðar og réttlætis.

mummi[á]btinternet.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband