Leita í fréttum mbl.is

Samfélagslaun

Vinkona mín Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi biður um meiri umræður um skatta- og samfélagsbótamál á bloggsíðu sinni. Það hafa kviknað nokkuð athyglisverðar umræður um þetta á síðunni hennar og er það vel, enda er að mínu áliti löngu kominn tími til að menn ræði skatta og launajöfnunarmál í alvöru.

Þróunin á vesturlöndum hefur verið sú sl. 25 ár eða svo að færa sig frá því að nota skattakerfið til launajöfnunar. En á móti hefur þróunin einnig verið sú að fara að skerða bætur eftir tekjum, auk þess að taka upp aukin "þjónustugjöld" fyrir notkunina á almannaþjónustunni. Mér finnst þetta skelfileg þróun. Til að sækja sjálfsagða almannaþjónustu og bætur þurfa menn nú að "gerast ölmusumenn" með því að sanna hversu tekjulágir þeir eru. Öryrkjar búa við óásættanlega framfærslu og til að menn skrimti koma menn fram með það ráð að gefa öryrkjum afsláttarkort sem menn geta síðan veifað því til sönnunar að þeir séu svo aumir að þeir hafi ekki efni á því að borga fullt verð. Slíkt er ekki einungis niðurlægjandi fyrir viðkomandi einstaklinga, heldur einnig fyrir samfélagið allt.

Það er réttur allra að geta búið mannsæmandi lífi í samfélaginu. Okkar ríka samfélagi ber skylda til þess að svo sé, enginn á að þurfa að leita eftir ölmusu nema í undantekningartilfellum (oftast one-off sjokk sem getur alltaf komið upp hjá fólki). Ég vil að við losum okkur út úr þessu kraðaki bóta og uppbóta, styrkja og skattaafslátta. Það er kominn tími til að við tökum upp samfélagslaun sem nægi öllum til framfærslu. Mætti t.d. nefna töluna 150-200 þúsund fyrir hvern einstakling yfir 18 ára aldri og lægri upphæð fyrir börn sem gengu til foreldra eða forráðamanna. Á einu bretti er hægt að losna við opinberan ellilífeyri, trygginga og örorkubætur (vissulega er of aukakostnaður við að lifa með t.d. örorku en slíkt yrði borið upp af samfélaginu í gegnum heilbrigðiskerfið), námslánin myndu hverfa, engin þörf fyrir atvinnuleysisbætur og félagslega framfærslu o.sv.fr. Hugsið ykkur bara hversu mikla skriffinnsku væri hægt að losna við, hugsið ykkur bara hversu mikið væri hægt að spara með því að hætta að þurfa að rannsaka hverjir væru að svindla á kerfinu. Það gæti enginn svindlað, allir hefðu sama framfærslurétt!

Nú segðu e.t.v. margir hvernig í ósköpunum sé hægt að fjármagna þetta. Menn gleyma þar einföldum hlut. Einstaklingslaun myndu almennt lækka sem um nemur þessari upphæð! Hægt væri því að skattleggja fyrirtækin út frá umsvifum, því þau myndu njóta samfélagslaunanna. Til að „refsa“ ekki mannfrekum fyrirtækjum á kostnað fjármagnsfrekra og til að „refsa“ ekki smærri fyrirtækjum á kostnað hinna stærri sé ég þennan skatt fyrir mér sem einhverskonar blöndu af sköttum á veltu (sem er mjög góður mælikvarði á umsvif) og sköttum á ráðningar (þar sem fyrirtækin njóta samfélagslaunanna í hlutfalli við fjölda starfsmanna). Það þarf að finna jafnvægi þar á milli, því ekki viljum við að kerfið stuðli að vinnuþrælkun (þ.e. fyrirtækin leitist við að ráða of fáa starfsmenn). Hvað þá með vinnuhvatann, hætta menn ekki bara að vinna? Ég hef einfaldlega meiri trú á einstaklingum en svo að þeir vilji leggjast í kör. Aftur á móti myndi þetta gefa barnafjölskyldum meiri sveigjanleika, þ.e. vinna minna og eyða meiri tíma með börnunum meðan þau eru ung (ég óttast ekkert að konurnar verði sendar heim, það skip hefur góðu heilli siglt). Auk þess myndi slíkt gefa frumkvöðlum tækifæri til að byggja upp nýsköpunarfyrirtæki án þess að þurfa að óttast að þeir eigi ekki fyrir salti á grautinn sinn. Niðurstaðan yrði sú að slíkt kerfi myndi samtímis viðurkenna rétt allra til mannsæmandi launa en á sama tíma efla einstaklinginn og gera hann sjálfan að sínum gæfu smiði, lífið hættir að snúast um það hvort þú eigir fyrir næstu húsaleigu.

Vissulega hafa slíkar hugmyndir komið fram áður. Og vissulega eru þær ekki útfærðar nákvæmlega, enda er markmiðið með að setja þær fram að skapa umræðu. Auðvitað verða alltaf einhverjir sem ekki myndu skilja að slíkum rétti sem samfélagslaun eru fylgir samfélagsskilda. En slík vandamál eru líka til staðar í núverandi kerfi, það þarf hvort sem er að taka á slíku. Upptaka samfélagslauna er svo byltingarkennd að það tekur ákveðin tíma fyrir samfélagið að aðlagast nýjum aðstæðum. En ávinningurinn er þess virði. Hugsið ykkur bara, fólk hættir að þurfa að ganga til kóngs og prests til að fæða börnin sín. Og hugsið ykkur alla skriffinnskuna sem sparast (sem ætti að kæta hægrimennina!), væri ekki betra að opinberir starfsmenn geti einbeitt sér að bæta almannaþjónustuna frekar en að eyða tíma sínum í að reikna bætur og bótaskerðingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Sveinbjörnsson

Sæll Mummi

Þetta er allt gott og blessað, vandinn er því miður sá að félagshyggjan á undir högg að sækja. Í dag er barátta okkar varnarbarátta. Þrátt fyrir að búið sé að selja mjólkurkýrnar sér þess ekki merki í lægri sköttum til lægst launaða fólksins eða í lægri þjónustugjöldum nema síður sé. Eina sem hefur breyst eru ofurlaunamennirnir. Nú berjumst við að heilbrigðiskerfið verði áfram rekið á félagslegum grunni og að orkan, vatnið og aðrar auðlindir þjóðarinnar í þjóðareign. Þá er einnig sótt að lýðræðinu með peningavaldinu. Þegar auðmenn eru farnir að setja skilyrði fyrir búsetu sinni og bera fé í pólitíkusa og flokka er svoldið erfitt að ræða samfélagslaun.

En hvað um það, hvernig þjóðfélag viljum við, því verðum við að svara engu að síður.

Rúnar Sveinbjörnsson, 1.10.2007 kl. 21:06

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Sæll, gaman að finna þig hér á blogginu.

Ég lýsi mig sammála þér varðandi afslátt til öryrkja, það væri mun nær að allar bætur dygðu fyrir nauðsynjum og gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu væri hætt. Ég hins vegar átta mig ekki á hvað þú ert að fara varðandi samfélagslaun, ertu að meina að þetta eigi að koma til viðbótar öðrum launum hjá vinnandi fólki? Eða falla niður hjá þeim sem geta sótt vinnu? Ég er því miður ekki jafntrúuð og þú á vinnugleði landans. Sorry, þú verður að útfæra þetta betur til að ég falli fyrir því.

Varðandi afslátt þá rakst ég á færslu á blogginu sem segir það sem segja þarf.

kveðja

Kristjana Bjarnadóttir, 1.10.2007 kl. 21:21

3 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Sæl Kristjana, gaman að sjá þig.

Varðandi spurningu þína þá myndu samfélagslaun renna til allra, enda ætla ég að skattleggja fyrirtækin fyrir samfélagslaununum, því launagreiðslur þeirra eiga að lækka sem því nemur. Allar bætur falla einfaldlega niður. Ef menn vilja ekki vinna þá geta þeir það. En við erum bara að tala um að samfélagslaunin nægi til lágmarksframfærslu þannig að ég sé ekki fyrir mér að menn hætti að vinna í unnvörpum. Ef ég get fengið segjum 500 þúsund á mánuði í laun, eftir að við tökum upp samfélagslaun uppá 170 þá "lækka" vinnulaunin mín auðvitað því sem þessu nemur niður í um 330 þúsund, en fyrirtækið borgar áfram 500 þúsund þar sem það er skattlagt fyrir samfélagslaununum mínum. Þetta er auðvitað ofureinföldun en þetta mun virka gróflega svona.

Guðmundur Auðunsson, 3.10.2007 kl. 10:19

4 Smámynd: Björk Vilhelmsdóttir

Sæll Mummi og takk fyrir góðar athugasemdir á minni síðu og flott skrif á þinni. Ég er ekki nógu dugleg að svara en les allar athugasemdir.

Ég er hjartanlega sammála þér með samfélagslaunin og ég þoli ekki góðgerðarhugmynhdafræði sem byggir á því að góða fólkið gefur þeim sem á þurfa að halda. Við verðum bara að nota þýðingu Maríu Kristjánsdóttur (eða einhvers á undan henni) á hugmyndum vinar okkar Karl Marx: "Sérhver leggi fram eftir getu, sérhver uppskeri eftir þörfum."

Björk Vilhelmsdóttir, 8.10.2007 kl. 10:35

5 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Sæll Guðmundur, hef nú fyrst tíma til að lesa síðuna þína. Þetta er skemmtilegt hugmynd. En nokkrar spurningar vakna. Og sú fyrsta er: Verður þeim sem eiga fyrirtækin  gert að hafa þessi sömu laun?

María Kristjánsdóttir, 11.10.2007 kl. 07:02

6 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Sæl María,

Hugmyndin er að hafa þetta sem einfaldast. Allir 18 ára og eldri íbúar landsins myndu fá samfélagslaunin. Engin skriffinska, ekkert "means testing". Þar sem allir eiga að geta haft í sig og á á þessum samfélagslaunum falla allar bætur og lífeyrir niður. Engin þörf fyrir ellilífeyri (mönnum verður auðvitað frjálst að spara til aukalífeyris), engin þörf fyrir atvinnuleysisbætur, engin þörf fyrir örorkubætur (reyndar er ákveðinn aukakosnaður sem fellst í því að búa við ákveðna fötlun en heilbrigðiskerfið myndi sjá um það). Engin þörf fyrir námslán, engin þörf fyrir styrki úr félagskerfinu. Skrffinska myndi stórminnka. Auðvitað verða launatekjur áfram skattlagðar (ekkert skattleysisþrep þar sem allir fá samfélagstekjur skattfrjálsar), ég legg til að sett verði á hátekjuskattþrep upp á 60% á launatekjur yfir milljón á mánuði. Eitt af helstu kostunum að mínu mati er að fyrirtæki komast ekki lengur upp með að borga smánarlaun, til þess að ráða fólk í nauðsynleg störf eins og ummönunarstörf þarf auðvitað að bjóða fólki laun ofan á samfélagslaunin. Slík sörf yrðu þá metin að verðleikum sem þau eru ekki í dag.

Það besta við kerfi samfélagslauna er að þetta er vel framkvæmanlegt, kosnaðurinn er alls ekki óklífanlegur eins og ég bendi á í framhaldsgreininni. Til þess að koma þessu á þarf bara pólitískan vilja. Þetta er vissulega róttæk hugmynd, en það er nauðsynlega að samfélagið spyrni við þeirri óheillaþróun sem stórfelld aukning á misskiptingu veldur. Og framar öllu, við losnum undan "ölmusuhugsunarhættinum" sem oft er að finna í bótakerfinu. 

Guðmundur Auðunsson, 11.10.2007 kl. 12:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Auðunsson
Guðmundur Auðunsson

Vill leggja sitt af mörkum til að byggja upp nýtt samfélag jöfnuðar og réttlætis.

mummi[á]btinternet.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband