Leita í fréttum mbl.is

Bankahrunið

Þar sem ég er nú í framboði (sjá http://thjalfi.blog.is/blog/thjalfi/entry/812581/ og www.mummi.eu) þá mun ég skrifa nokkrar greinar um stjórnmál og áherslumál mín hér á síðunni. Byrjum á bankahruninu.

Öll sorgarsagan byrjaði með einkavinavæðingu bankanna. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ákváðu að skipta ríkisbönkunum milli sín, sjálfstæðismennirnir fengu að úthluta Landsbankanum til sinna manna og Framsókn fékk Búnaðarbankann. Í síðarnefnda tilfellinu var ljóst að leifarnar af SÍS veldinu höfðu ekki efni á bankanum, þó boðinn væri á útsöluverði. Var því sett af stað leikrit sem gerði nokkra einstaklinga að milljarðamæringum á einni viku. Þýskur smábanki var fenginn sem leppur og kaupverðið tekið að láni. Síðan var líklega gerður samningur við Kaupþing um að kaupa bankann af framsóknarmönnunum eftir einkavinavæðinguna. Kaupþingi var bannað að kaupa bankann beint en greiddi mun hærra verð fyrir Búnaðarbankann nokkrum vikum eftir einkavinavæðinguna. Þar urðu nokkrir einstaklingar að milljarðamæringum á nokkrum vikum. finnur_og_lafur.gif

Nú voru ríkisbankarnir komnir í einkaeigu. Landsbankinn hafði verið byggður upp af þjóðinni á meira en hundrað árum og Búnaðarbankinn var almennt talinn best rekni banki landsins. Einkavinirnir tóku því við góðu búi. Fáir spáðu því þá að þeim tækist á einungis 6 árum að setja ekki einungis þessa góðu banka á hausinn heldur alla þjóðina með þeim. Þetta virtist byrja ágætlega. Hávaxtastefna ríkisstjórnarinnar ásamt mjög lágum vöxtum á alþjóða fjármálamarkaðinum gerðu þeim kleift að græða stórlega á Íslandi. Bankastjórarnir héldu nú að þeir væru fjármálasnillingar á alþjóðamælikvarða, fóru að borga sér ofurlaun sem réttlætt voru með því að það þyrfti að borga þessum snillingum milljarða í laun, annars færu þeir bara eitthvað annað. Eftir á að hyggja hefðu þeir átt að fara eitthvað annað, t.d. út í rekstur banka á Tortola. Þá værum við ekki að borga spilavítisskuldirnar þeirra í dag. Bankastjórarnir og eigendur bankanna gerðust þotulið í orðsins fyllstu merkingu og flugu um heiminn á einkaþotum og byggðu sér sumarbústaði sem kostuðu milljarða. Í gamla dag létu menn sér nægja að eiga kofa í Þrastarskógi og elda þar á prímus. Slíkt var auðvitað ófært fyrir snillingana. Þeir spreðuðu líka peningum í að fá skemmtikrafta til að spila í afmælum sínum og keyptu stúkur á flestum fótboltavöllum í Englandi, jafnvel heilt fótboltalið. Nú var sko gaman að lifa. Á meðan á þessu stóð fór verulega að halla undan fæti hjá bönkunum.

Bankasnillingarnir ákváðu nefnilega að þeir væru að reka stór fjölþjóðafyrirtæki, ekki bara íslenska banka. Þeir notuðu gott nafn bankanna sem þeir fengu frá þjóðinni auk mannorðs okkar Íslendinga sem heiðarlegs fólks til að taka stórfelldar upphæðir að láni á ofvöxnum fjármálamörkuðum. Þeim tókst auðvitað að glata bæði orðspori bankanna og mannorði Íslendinga og mun það taka þjóðina áratugi að byggja það upp aftur. Ástæðan fyrir þessum stórfelldu lántökum til útþenslunnar var mjög einföld. Græðgi. Þó það væri hægt að fá 10-15% arðsemi á þenslutímunum var það ekki nóg. Snillingarnir fundu út að með því að taka lán til að margfalda upphæðina sem notuð var til fjárfestingar mætti margfalda ágóðann. Ég útskírði þetta í með einföldu dæmi í annarri blokkfærslu. Þetta gekk auðvitað upp svo lengi sem nægt ódýrt fjármagn var í boði og hagnaðurinn af fjárfestingunum var hærri en kostnaðurinn við lánin.

Árið 2006 lokaðist fyrir mikið af lánamöguleikum íslensku bankanna. Alþjóðlegi fjármálamarkaðurinn var farinn að hökta og menn voru farnir að efast stórlega um hversu sterkir íslensku bankarnir væru í raun. Nú var aðeins tvennt til ráða hjá bönkunum. Skrúfa ofan af útþenslunni með því að minka lán (sem fóru að stórum hluta til eigendanna) og selja eignir. Þetta vildu bankasnillingarnir ekki, þeir voru orðnir vanir því að lifa hátt og fá stóra bónusa. Þá datt Landsbankanum snilldarráð í hug. Opna internetbanka í London og bjóða mun hærri vexti en nokkur annar banki (Kaupþing gerði þetta líka í gegnum dótturfélög). Venjulega þegar menn bjóða hærra verð fyrir peninga en aðrir eru þeir með rosalega flott bísnissplan. Nú hefur komið í ljós að svo var ekki farið um íslensku bankasnillingana. Þeir söfnuðu á örskömmum tíma nær allri landsframleiðslu Íslands í innistæður og héldu áfram fjárhættuspilunum eins og áður. Og hrósuðu sér af snilldinni. Með þessu frömdu þeir einn versta glæpinn og gerðu á endanum útaf við mannorð allrar íslensku þjóðarinnar. The rest is history eins og menn segja á ensku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Auðunsson
Guðmundur Auðunsson

Vill leggja sitt af mörkum til að byggja upp nýtt samfélag jöfnuðar og réttlætis.

mummi[á]btinternet.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband