Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Blekkingar um stimpilgjöld

Svei mér þá, það eina sem kemur af viti í þessari grein kemur frá Árna fjármálaráðherra! Það virðist vera útbreiddur misskilningur (eða vísvitandi blekkingar) meðal manna að stimpilgjöld séu skattur á húsakaupendur. Þetta er þvæla, stimpilgjöld eru fyrst og fremst skattur á húsnæðisseljendur. Þetta er einfaldlega staðreynd svo lengi sem menn telja að verð á markaði ráðist (allavega að hluta) af framboði og eftirspurn. Ef ég er með 20 milljónir sem ég þarf að nota í húsnæðiskaup þá er ég tilbúinn að borga 20 milljónir, svo einfalt er það. Ef stimpilgjöldin af kaupunum eru 500 þúsund og þau eru lögð niður, þá er ég áfram tilbúinn að borga 20 milljónir, þannig að það er húsnæðisseljandinn sem græðir á niðurfellingu skattsins. Skiptir litlu máli hvort mikil þensla sé í hagkerfinu (eina undantekningin er þegar alvarlegur markaðsbrestur er á húsnæðismarkaðinum þannig að húsnæðiseigendur eru ekki tilbúnir að selja en það er fjarstæða að slíkt ástand sé við líði á Íslandi). Það sem verra er, ef ég bý í góðu húsnæði en er með 20 milljónir til skammtímafjárfestinga þá eru stimpilgjöldin eitt af því sem hindar mig í því að fjárfesta í húsnæði. Ef þau eru felld niður eykst húsnæðisbrask stórlega, sem leiðir auðvitað til hækkaðs húsnæðisverðs. Þannig að þeir einu sem græða á niðurfellingu stimpilgjalda eru húsnæðisbraskarar og eigendur húsnæðis, sem þegar eru búnir að græða stórlega á hækkunum á húsnæði (þetta eru auðvitað einföldun). Þeir sem tapa eru nýir húsnæðiskaupendur sem þurfa að borga hærra verð vegna braskaranna. Er það markmið ríkisstjórnarinnar, að færa peninga frá unga fólkinu sem er að berjast við að kaupa sína fyrstu íbúð til stóreignamannanna?

Það er sorglegt að Samfylkingin hafi á að skipa viðskiptaráðherra sem enga þekkingu virðist hafa á verðmyndun og ekki þekkja til framboðs og eftirspurnar. Er virkilega ekki hægt að finna einhvern sem skilur ABC í hagfræði í flokknum? Sorglegt að dýralæknirinn Árni virðist allavega hafa smá skilning á málinu. 


mbl.is Hættulegt að hætta að stimpla?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt af stórmennum 20. aldarinnar dregur sig í hlé

Fidel Castro RuzFidel Castro, fráfarandi forseti Kúbu hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér á ný sem leiðtogi landsins. Þetta kemur ekki á óvart þar sem nær tvö ár eru síðan Castro dró sig í hlé vegna veikinda. Fidel Castro og félagar hans komust til valda fyrir nær 50 árum í byltingu gegn spilltri einræðisstjórn Batista. Síðan þá hefur Kúba náð frábærum árangri í að byggja upp manneskjulegt samfélag þar sem menntun og heilsugæsla er betri en í nokkru öðru þróunarlandi, þrátt fyrir stanslaus efnahagsleg skemmdarverk bandaríkjastjórna frá upphafi byltingarinnar. Þeir litu á Kúbu sem persónulegan "amusement park" ríkra bandaríkjamanna og mafíósa og brjáluðust yfir því að hjálegan vogaði sér að standa uppi í hárinu á heimsveldinu. Kúba er í dag hærra á velmegunarlista Sameinuðu þjóðanna en nær öll önnur þróunarlönd, þó vissulega hafi stjórn Castro gert mörg mistök og margt geti farið betur í samfélaginu. Á Kúbu eru pólitískir fangar sem þar ættu ekki að vera, en þeir eru þó flestir í haldi bandaríkjastjórnar í Guantanamo herstöðinni. Einhverjir tugir eru þó í haldi Havanastjórnarinnar. Það breytir því ekki að barnadauði þar er minni en í sjálfum Bandaríkjunum og heilsugæsla til fyrirmyndar og stendur öllum til boða ókeypis. Þetta þrátt fyrir nær 50 ára harkalegt viðskiptabann Bandaríkjanna. 

Hvað tekur við er erfitt að segja. Líklegt er að Raúl Castro, bróðir Fidels og einn af síðustu byltingarmönnunum sem eftir eru taki við til skamms tíma. En þar sem Raúl er líka farinn að eldast þá er líklegt að einhver af yngri kynslóðinni, svo sem Roberto Robbina, utanríkisráðherra, taki við eftir nokkur ár. Stjórnin mun ekki hrynja í Havana, þó bandaríkjastjórn reyni sitt besta til að stuðla að upplausn á Kúbu. Vissulega má búast við einhverjum breytingum þó líklega verði þær hægfara. Kúbumenn vilja einhverjar breytingar, en það síðasta sem þeir vilja er að kúbverska mafían í Miami taki yfir landið. Ef Barak Obama nær kjöri sem Bandaríkjaforseti þá er ekki ólíklegt að efnahagsþvingununum verði lyft, allavega undið ofan af þeim. Nái McCain hins vegar kjöri er ólíklegt að nokkuð breytist. Kúbverska mafían hugsar sér líklega gott til glóðarinnar núna og gætu keyrt af stað nýja hrinu hryðjuverka í landinu. En þessi mafía nýtur ekki nokkurs stuðnings meðal íbúanna á Kúbu. Þeirra vegna fá þeir vonandi að þróa samfélag sitt á eigin forsendum, halda í það besta úr byltingunni og bæta það sem miður fer. Ég er mátulega bjartsýnn að það takist fái þeir frið til þess frá yfirgangi bandaríkjamanna.


mbl.is Kom fáum á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græðgisvæðing Íslands?

Mikið er dapurlegt að sjá að græðgisvæðingin á Íslandi virðist nú vera komin inn í dómskerfið. Hvaða "árásir" voru gerðar á viðkomandi einstaklinga? Ég veit ekki betur en að "árásirnar" væru réttmæt gagnrýni á ráðherra sem misbeitti valdi sínu. Sérstaklega hræsnina, þar sem viðkomandi ráherra var hluti af ríkisstjórn sem setti hina alræmdu 24 ára reglu, sem gerði það að verkum að þessi unga kona gat ekki fengið dvalarleyfi út á mann sinn. Auðvitað átti hún að fá dvalarleyfi, enda er 24 ára reglan fáránleg. En þessu var "reddað" af ráðherra með hraðferð til ríkisfangs. Ein regla fyrir pöpulinn og önnur regla fyrir þá innvikluðu. Fyrir þetta var Jónína Bjartmarz réttilega gagnrýnd. Þessi ungu hjón lenda þar auðvitað á milli, en ég veit ekki til þess að nokkur hafi ráðist á þau persónulega. Hins vegar virðast þau nú dæma sig sjálf með þessari fáránlegu málssókn, sem ég get ekki annað en talið hreina græðgi vegna upphæðanna sem þau fara fram á frá okkur eigendum útvarpsins. Virðist vera illu heilli hluti af græðgisvæðingunni. Ef markmiðið var að fá "uppreisn æru" hefði verið auðvelt að fara fram á 1 krónu í miskabætur og málskostað greiddan. Nei, það virðist ekki vera markmiðið heldur vonin um að komast í peningakistu landsmanna.
mbl.is Meiðyrðamál gegn Kastljósi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við skilgreinum okkur ekki sem vinstri flokk

Hjálp. Crying Hvað hefur komið fyrir samtökin sem ég tók þátt í að stofna fyrir 20 árum? Er virkilega svo illa komið fyrir stúdentum á Íslandi að menn skammist sín fyrir að hafa pólitískar skoðanir? Æ, æ, má ekki styggja neinn? Hvaða aumingjaskapur er þetta? Stúdentaráð Háskóla Íslands er ekki skemmtinefnd í framhaldsskóla. SHÍ eru hagsmunasamtök stúdenta og því í eðli sínu pólitísk. Ég skammaðist út í Vöku í síðasta bloggi, enda er sauðagæra útungunarstöðvar Sjálfstæðisflokksins gersamlega óalandi og óferjandi (má ég þá heldur biðja um "snarvitlausa" en þó skemmtilega öfgahægrimenn eins og Óla Björn Kárason, sem var í stúdentabaráttunni aðeins á undan mér, hann skammaðist sín allavega ekki fyrir að vera hægrimaður). En mikil eru vonbrigði mín með félagið "mitt" Röskvu, ef að Lilja Guðrún Jóhannsdóttir er dæmigerð fyrir frammámenn þar í dag. Hún segir í viðtali við Moggan: "Við leggjum áherslu á jafnrétti allra til náms og mögulega telst það vinstra megin en við skilgreinum okkur ekki sem vinstri flokk". Fyrri hlutinn er bara almennt japl meðan seinni hlutinn er skelfilegur. Lilja, Röskva heitir fullu nafni "Röskva, samtök félagshyggjufólks í Háskóla Íslands". Þau voru stofnuð sem samtök vinstrisinnaðra stúdenta. Orðið félagshyggja skírskotar til vinstri, enda virkar það sem bein þýðing á orðinu socialism (félags-hyggja). Ef þú eða félagar þínir vilja breyta félaginu og stofna Röskvu, samtök áhugamanna um skemmtanir og prófaskil við Háskóla Íslands" þá er allavega lágmark að þú berir fram tillögu þess efnis á aðalfundi félagsins.

Stúdentabaráttan er í eðli sínu pólitísk. Þó vissulega fari hagsmuni pólitískra samtaka stúdenta oft saman (eins og t.d. í sveitarstjórnum þar sem oft er samkomulag um flest mál) þá skilur vissulega á milli. Og lífskoðanir stúdenta ráða þar mestu hvernig tekið er á ágreiningsmálunum. SHÍ er því pólitísk stofnun og Röskva pólitískt félag stúdenta (NB, ekki flokkspólitískt, þar er mikill munur á, samtök vinstrisinnaðra stúdenta hafa aldrei verið flokkspólitísk). Ef menn vilja starfa í nemendaráði þá eru flestar námsbrautir með slík. Svo eru einnig flest námsbrautafélög með skemmtinefndir. En stúdentabaráttan á að vera pólitísk. Stúdentar hafa í gengum söguna verið í fararbroddi fyrir róttækum breytingum og framfarasinnuðum skoðunum.  Og oft hefur barátta stúdenta verið alþjóðleg. Þetta er eitthvað sem stúdentar eiga að vera stoltir af, ekki reyna að fela sig bak við einhverja "ópólitíska" grímu. Hvar er krafturinn, hvernig stendur á því að SHÍ gerði ekki allt vitlaust þegar Afganskur stúdent var dæmdur til dauða fyrir að dreifa bæklingi meðal samstúdenta sinna um réttindi kvenna? Þetta kemur stúdentum við, þetta kemur íslendingum við því peningar almennings eru sendir til að lappa upp á ríkisstjórnina sem staðfesti þennan dauðadóm. Hvar voru mótmælin við utanríkisráðuneytið? Hvers vegna var Ingibjörg Sólrún ekki tekin á teppið af stúdentum og þess krafist að við íslenska ríkisstjórnin hætti öllum stuðningi við ríkisstjórn Afganistan ef stúdentinn væri ekki látin laus þá þegar? Eða voru menn svo uppteknir í baráttunni um hvort prófúrlausnum væri skilað vikunni fyrr en seinna að þeir höfðu ekki tíma til að vesenast í svona máli sem "kæmi stúdentum hvort sem er ekki beint við"?

Þó hér sé stappað á Röskvu,  þá vil ég ítreka að menn láti sér ekki detta í hug að styðja Vöku, sem eru miklu verri. Stúdentar, farið því endilega á kjörstað og merkið við Röskvu, en gerist líka endilega virk í félaginu og hindrið að Röskva breytist í skemmtiklúbb. Enda er miklu meira gaman að skemmta sér eftir góðan baráttudag! Cool


mbl.is Æfingabúðir?: Pólitísk tengsl „mýta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mér kemur þetta ekki við

Í dag og á morgun eru kosningar til Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ). Það er ánægjulegt að félag sem ég tók þátt í að stofna fyrir 20 árum sé við stjórnvölin í SHÍ og er það að sjálfsögðu von mín að Röskva vinni annan góðan sigur nú. En það er ekki það sem mig langar að fjalla um hér, mig langar að fjalla um þessa áráttu að "stúdentar eigi ekki að skipta sér að málum sem koma þeim ekki við". Kveikjan að þessum skrifum var stórgóð grein sem ég sá á bloggi Bryndísar Hlöðversdóttur og nota ég hér að uppistöðu komment sem ég kom fram með á síðu hennar. 

Vaka, félag "lýðræðissinnaðra" stúdenta er með það á stefnu sinni að SHÍ eigi aldrei að fjalla um mál sem "koma stúdentum ekki beint við", þ.e. eigi einungis að fjalla um lánamál stúdenta, húsnæðismál þeirra, prófamál og bókakost. SHí megi þá t.d. aldrei álykta gegn fjöldamorðum á íröskum borgurum sem framkvæmd hafa verið með stuðningi "hinna viljugu þjóða", þ.á.m. okkar íslendinga. Þetta "ópólitíska japl" meðal stúdentahreyfinga er í besta falli hlægilegt og í raun móðgun við baráttu stúdenta fyrir mannréttindum og farmförum í mannkynssögunni. Auðvitað eiga stúdentar og fulltrúar þeirra að hafa skoðanir og sjálfsagt að þeir og stofnanir þeirra taki þátt í pólitískri umræðu.

Þessi stefna er ekki ný og Vaka var ekki alltaf svona "ópólitísk". Þessi "ópólitíska" plága kom fyrst inn í stúdentahreyfinguna frá framsóknarmönnunum sem stofnuðu Félag Umbótasinnaðra Stúdenta fyrir nær 30 árum. Þegar það félag var dautt vegna pólitísks sinnuleysis félaga þeirra og klofnings (sjá t.d. þetta), þá sá Vaka sér leik á borði að taka upp þetta "ópólitíska" bull til að fela óvinsælar hægriskoðanir sínar. Ég get tekið tvö dæmi um fáránleika þessa. Við vinstrimenn bárum upp ályktunartillögu á stúdentaráðsfundi árið 1988 þess efnis að Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) lýsti yfir stuðningi við baráttu stúdentasamtaka ANC gegn Apartheid stjórninni í Suður Afríku. Þáverandi formaður SHÍ, Sveinn Helgi Sveinsson, bar þegar upp frávísunartillögu (sem á endanum var samþykkt 16-14) þar sem þetta væri mál sem kæmi stúdentum á Íslandi ekkert við! Eftir hávaðarifrildi mín og Sveins Andra á fundinum lét Sveinn m.a.s. bóka að það kæmi ekki til greina að styðja við bakið á hryðjuverkasamtökunum ANC! Annað dæmi um þennan fáránleika var þegar Röskvuliðar í SHÍ báru upp tillögu um að ráðið tæki á móti fulltrúum stúdenta frá Tékkóslóvakíu, sem voru framarlega í baráttunni gegn einræðisstjórn kommúnista, og lýstu yfir stuðningi við lýðræðisbaráttu þeirra. Þessu vísaði meirihluti Vöku líka frá og það kom því í hlut Röskvu að bjarga mannorði íslenskra stúdenta og taka á móti Tékkaslóvökunum. Til að toppa þetta svo var SHÍ ein af fáum samtökum stúdenta í heiminum sem ekki mótmæltu fjöldamorðum kínverskra stjórnvalda á stúdentum 1989.

Ungt fólk á að vera róttæk samviska samfélagsins. Sjálfsagt er að stúdentar séu þar í fararbroddi. Það er því fáránlegt að samtök stúdenta útiloki mál sem fjalli ekki um "bein" hagsmunamál þeirra. Slíkt gerir ekkert annað en að senda dapurleg skilaboð til æsku landsins um að vera ekki að ibba sig um eitthvað sem þeim "kemur ekki við". Það kemur okkur við að kvenstúdentar sem ekki eru huldir frá toppi til táar í Írak fá sýru í andlitið og er jafnvel nauðgað og drepið. Það kemur okkur við að taka eigi stúdent í Afganistan af lífi fyrir það eitt að dreifa grein um kvenréttindi og íslam. Við erum þátttakendur í stríðinu í Afganistan. Stúdentar eiga að vera berjandi á dyr utanríkisráðuneytisins og krefjast þess að stjórnvöld í Afganistan frelsi þennan stúdent. Verði það ekki gert eigum við þegar í stað að hætta öllum stuðningi við stjórnvöld í Afganistan og gera það opinberlega. Þetta kemur okkur við. Þetta kemur stúdentum við. Og þetta er mál sem SHÍ á að taka upp á arma sína, því þetta er í samhengi hlutanna miklu mikilvægara en hvort próflausnum er skilað einni viku fyrr eða síðar. Stúdentar eiga að vera í fararbroddi í þessari baráttu. Það er því dapurlegt til þess að hugsa að það skuli vera stefna félaga stúdenta að "þetta komi okkur ekki við" og því eigi ekki að skipta sér að þessu.

Mítan um ónýta gjaldmiðilinn

Það virðist í tísku núna að tala um hversu ónýt krónan sé. Vissulega er krónan of sterk í dag og vissulega er lítill gjaldmiðill viðkvæmur fyrir sveiflum. Og vissulega er vaxtaokrið að slaga marga. Þetta er ekki síst vegna ónýtrar hagstjórnar Sjálfstæðisflokksins. Það virðist því freistandi að hætta þessu baksi með krónuna. Þetta er hins vegar stórhættuleg skoðun.

Öllum gjaldmiðlum fylgir kostaður og sá kostaður hverfur ef land leggur niður gjaldmiðil sinn og tekur upp "alþjóðlegan gjaldmiðil" eins og t.d. Evru. En, til þess að efnahagskerfi passi saman á gjaldmiðlasvæði þurfa efnahagssveiflurnar að vera svipaðar á öllu svæðinu. Á þann hátt má færa sterk rök fyrir því að t.d. Frakkland og Þýskaland eigi að sameinast í einu gjaldmiðlasvæði. En það er fjarstæða að íslenska hagkerfið sé svipað og evrusvæðið. Eitt "asymmetric" sjokk (t.d. hrun á fiskistofnum) gæti rústað efnahagskerfi lands ef ekki er möguleiki á gengisfalli. Það er augljóst að Evrópubankinn myndi aldrei hegða peningastefnu sinni eftir sveiflum í íslensku efnahagskerfi. Útflutnisatvinnuvegirnir gætu því hrunið á einu bretti (og keyptir upp á útsölu) og íslenska hagkerfið myndi aldrei bera sitt barr eftir það.

Á loka áratug 20. aldarinnar batt Argentína gjaldmiðil sinn við bandaríska dollarann. Allt gekk þokkalega um tíma, en síðan gerðust ósköpin. Fyrst var verðbólga meiri en á dollarasvæðinu, sem þýddi einfaldlega að samkeppnishæfni argentínsks útflutnings lækkaði snarlega (til að halda rauntekjum þurfti að hækka laun starfsmanna án þess að útflutningstekjur hækkuðu á móti). Næst fór efnahagskerfið í gegnum verðhjöðnun (þ.e. vörur lækkuðu í verði) sem gekk endanlega af innlendum iðnaði dauðum. Verðhjöðnunin leiddi til eftirspurnarkreppu á innanlandsmarkaði (hvers vegna að kaupa vöru í dag ef þú býst við að hún lækki í verði á morgun), sem jók enn á efnahagskreppuna. Þá var efnahagskerfið ein rjúkandi rúst, með fjöldaatvinnuleysi og fjöldamótmælum. Loksins komst ríkisstjórn til valda og bjargaði því sem bjargað varð með stórfelldri gengisfellingu (reyndar allt of seint en það er önnur saga). Í þessu tilfelli höfðu Argentínumenn ekki tekið upp dollarann alfarið og gátu því bjargað sér fyrir horn. Menn eru þó að tala hér um að fella niður íslensku krónuna og taka upp evru. Þá gætum við ekki einu sinni bjargað okkur fyrir horn eins og Argentínumenn þó gátu.

Það ætti því að vera ljóst að þrátt fyrir mikinn kostað við að halda í krónuna þá er hættan á því að leggja hana niður einfaldlega of mikil til að gera það. Slíkt væri fjárhættuspil þar sem þú gætir tapað öllu. Það er hins vegar ljóst að ekki myndu allir tapa á því að leggja niður krónuna. Það má færa sterk rök fyrir því að fjármálakerfið hefði af því hag. Þess vegna er umræðan komin á fullt. Pössum okkur á því að leggja ekki íslenska hagkerfið undir með því að leggja krónuna niður. Þetta virðist allavega hagfræðingurinn Geir Haarde skilja (enda sótti hann sama skóla og ég!). En eitthvað virðist pólitísk óskhyggja blinda sumum um sýn, sérstaklega Samfylkingarmönnum.


mbl.is Stendur ekki til að skipta um gjaldmiðil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Guðmundur Auðunsson
Guðmundur Auðunsson

Vill leggja sitt af mörkum til að byggja upp nýtt samfélag jöfnuðar og réttlætis.

mummi[á]btinternet.com

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband